sunnudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- John Patitucci



John Patitucci fæddist árið 1959 í Brooklyn-hverfi New York borgar í Bandaríkjum Norður Ameríku. Hann hóf að spila á bassa er hann var tíu ára og var þá mikið að hlusta á t.d. The Beatles og tónlistarmenn sem voru hjá Motown útgáfunni (James Jamerson bassaleikari Motown var mikill áhrifavaldur á Patitucci). Er hann var 12 ára var hann farinn að semja tónlist og koma fram opinberlega, þrem árum síðar (15 ára) tók hann til við að læra á kontrabassa.

John Patitucci er einn af fáum bassaleikurum sem telja má til snillinga á bæði kontra- og rafbassa. Meðal helstu áhrifavalda hans á rafbassann eru fyrr nefndur James Jameson, Stanley Clarke (sem spilar einnig á bæði kontra- og rafbassa), Jaco Pastorius, Steve Swallow, Larry Graham, Abe Laboriel, Chuck Rainey, Willie Weeks, Jerry Jemmott og Anthony Jackson. Einnig ber hann mikla virðingu fyrir Marcus Miller. Meðal helstu áhrifavalda hans á kontrabassann eru Ron Carter, Ray Brown, Eddie Gomez, Scott LaFaro, George Mraz og Niels-Henning Örsted Pedersen. Hann hefur sem sagt sterkar rætur í soul/R&B tónlist og jazz, jafnframt því sem hann lærði klassíska tónlist. Saxafónleikarar á borð við Michael Brecker, John Coltrane og Joe Henderson eru einnig áhrifavaldar og reynir Patitucci að ná sama flæði í sólóum sínum og honum finnst þeir ná fram í spuna sínum. Hluti af færni hans í jazzspuna er sprottin frá þeirri iðkun hans að upprita og læra sóló annara tónlistarmanna. Eitt af fyrstu sólóunum sem hann lærði var með Stanley Clarke af plötunni Return To Forever, annað var með Willie Weeks af tónleikaplötu Donny Hathaway “Voices Inside (Everything Is Everything)”. Síðar réðst hann í sóló með Chick Corea, Michael Brecker, John Scofield (á Rough House) og Herbie Hancock.

Tækni John Patitucci er mikill og fjölbreytt, enda maðurinn greinilega vel menntaður og undirbúinn. Sóló hans bera þess vissulega vott að hann hefur stúderað saxafónleikara, línurnar fljóta liðlega í gegnum hljómana með bæði ryþmísku og lagrænu öryggi. Sólólínur hans liggja yfirleitt á efri hluta tónsviðs 6 strengja bassans (Ken Smith og síðar Yamaha TRB) sem hann byrjaði að nota árið 1985 um það leyti er hann gekk til liðs við raf-jazz sveit Chick Corea. Tónn hans er nútímalegur, hreinn og beinn, stundum er “handfylli” af “reverbi” bætt við hljóminn.

John Patitucci hafa fallið í skaut ýmsar vegtyllur gegnum árin. Árið 1986 var hann kosinn af félögum sínum í hljóðversheiminum (National Academy of Recording Arts and Science) besti (MVP) kontrabassaleikarinn. Hinar fjölmörgu plötur sem hann hefur spilað inn á með Chick Corea og svo hans eigin plötur, 6 að tölu, hafa fært honum 8 Grammy tilnefningar og 2 Grammy verðlaun (ein fyrir spilamennsku og önnur fyrir tónsmíðar). Þar að auki fór fyrsta sólóskífa hans “John Patitucci” á topp Billboard Jazz vinsældalistans. John Patitucci hefur unnið fjölmargar (vinsælda/hæfileika) kosningar í hinum ýmsustu tímaritum fyrir bæði raf- og kontrabassaleik sinn t.a.m. besti jazz bassaleikarinn í “Guitar Player Magazine” árin 1992, ’94, og ’95. Lesendaverðlaun og besti jazz bassaleikarinn í “Bass Player Magazine” árin 1993, ’94, ’95 og og lesendaverðlaunin 1996. Hann hefur einnig fengist við kennslu á námskeiðum í spilamennsku og tónsmíðum um allan heim og er listrænn stjórnandi Bass Collective í New York.



Plötur John Patitucci:

Hlustið á John Patitucci í iTunes

Bassalína


Smellið á myndina til að fá stærri mynd.

Hér kemur stutt og einföld bassalína úr laginu "Feel Good Inc" með Gorillaz.

Riffið/bassalínuna má einnig spila áttund neðar. Þá þarf að hafa 5. str. bassa eða stilla niður um hálftón á 4. str. bassa.

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Marcus Miller




Bassaleikarinn Marcus Miller fæddist 14. júní 1959 í Brooklyn og ólst upp í Jamaica hluta Queens-hverfis í New York.
Fyrstu kynni hans af tónlist urðu er hann heyrði föður sinn, sem var kirkju organisti, spila allt frá gospelsálmum til klassísku tónbókmenntanna. Marcus fékk svo smekk fyrir djasstónlist eftir að hafa heyrt frænda sinn Wynton Kelly spila á píanó (Kelly er þekktastur fyrir píanóleik sinn með Miles Davis). Listagyðjan hafði smitað Marcus af tónlistar áhuga og brast hann með það sama í söng. Það var svo um tíu ára aldurinn sem hann hóf klarinettið á loft og blés í. Skömmu síðar náði vinsælda popp þess tíma tangarhaldi á honum og listamenn og hljómsveitir á borð við Kool & The Gang, Stevie Wonder, The Jackson 5 og Isaac Hayes náðu áttu athygli hans. Klarinettið gerði honum ekki auðveld með að komast í hljómsveitir í hverfinu þannig að hann reyndi fyrir sér á saxafón og orgel áður enn bassinn varð hans hljóðfæri. Þeir bassaleikarar sem hinn ungi Marcus tók sér til fyrirmyndar voru t.d. Robert Bell í Kool & The Gang, Francis “Rocco” Prestia í Tower of Power, síðar urðu bræðings-boltarnir honum hvatning, t.a.m. Stanley Clarke og Weather Report bassaleikararnir Alphonso Johnson og Jaco Pastorius. Tónlist Jaco fékk þó meiri athygli en tónlist hinna.



Það var klarinettið sem kom honum inn í High School of Music & Arts og síðar Queens Collage, en það var bassinn sem halaði inn fyrstu “giggin” hans sem atvinnutónlistarmanns. Hann spilaði t.a.m. með hljómborðsleikaranum Lonnie Liston Smith og fyrstu hljóðversvinnuna fékk hann enn á táningsaldri með flautuleikkonunniBobbi Humphrey, það var platan “Indivituals”. Eftir það fór hann í tónleikaferðalag með trommaranum Lenny White. Er heim var komið fékk hann starf í gegnum Buddy Williams (trommara Bobbi Humphrey) við að spila í sjónvarpsþáttunum “Saturday Night Live”. Þar komst hann í kynni við saxafónleikarann David Sanborn, sem notaði Marcus á plötunni “Voyeur” og tilfallandi tónleikaferðalög. Boltinn var farinn að rúlla á fullu og um það leiti sem Miles Davis hringi í Marcus, þá var svo sannarlega kominn “Miller Time”, stund okkar manns runnin upp í tónlistarheiminum.




Stíll og tækni Marcus Miller er með miklum ágætum. Hann hefur verið hvað þekktastur fyrir þá tækni að nota þumal hægri handar til að slá með strengina (e. slap technique) og einnig er hann afbragðs spilari á bandalausann bassa. Það svo sem leynir sér ekkert að hann hefur tekið sér Jaco sér til fyrirmyndar, en hann hefur samt náð að mynda sinn eignn stíl úr öllum þessum áhrifum. Það sama má segja um slaptæknina, sem er sprottin frá Larry Graham en Stanley Clarke tók svo upp á sína arma (eða þumal...) og betrum bætti, Marcus gerir þetta allt að sínu, með sinni eigin útfærslu og nálgun.



Sem “slappari” þá hefur hljómur hans einkennst af skýrum og tærum hljóm, sem hefur þó heilmikinn botn og “punch”. Sem fyrr segir er þumallinn aðalega notaður en þó kemur “pop-“ið fyrir (þá er strengurinn “snappaður” næstum því neðan frá og fæst þá frekar hvellur hljómur sem sker í gegn). Til að ná sem bestum slap-hljóm þá slær Marcus strengina við enda fingraborðsins. Önnur tækni sem Marcus hefur talsvert notað er að dempa strengina með hægri handar jaðrinum og spilar svo með þumlinum (þó ekki slap!!). Anthony Jackson hefur einnig notast við þessa tækni. Stór hluti af stíl Marcusar er þó hversu er ótrúlega “funky” hann er og með “groove” pakkann á kristal tæru.



Marcus Miller hefur notið mikilla vinsælda og hlotnast haugur af viðurkenningum t.d. frá Bass Player (t.a.m. bassaleikari ársins 1995) og þó nokkrar Grammy tilnefningar t.d. fyrir sólóplötu hans “Tales” sem kom út árið 1995. Grammy verðlaun hefur hann (a.m.k.) hlotið fyrir “Voyeur” plötu David Sanborn og núna seinast fyrir sína eigin plötu “M2” sem kom út fyrir skemmstu.

Úrtak af plötum MM.

Marcus Miller - Warner Brothers (1984)
The Sun Don't Lie - PRA (1993)
Tales - PRA (1995)
Live & More - GRP/PRA (1998)
Suddenly - Import (1998)
Best Of Marcus Miller - Japanese (2000)
M2 - Telarc (2001)

Hlustið á nýjustu plötu Marcus Miller, Silver Rain, í iTunes
Fleiri hljóðdæmi með Marcus Miller

fimmtudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Jaco Pastorius



“Hi. I’m Jaco Pastorius, and I’m the greatest electric bass player in the world.”

Þessu hélt John Francis Pastorius III fram. Fyrir mörgum væri þess háttar yfirlýsing ekkert annað en grobb og mont egóistans. En fyrir þá tónlistarmenn sem þekktu Jaco og deildu með honum sviðinu, var þetta staðreynd. Fyrir þá bassaleikara sem eru að taka sér stíl hans og tækni til fyrirmyndar, þá segir þessi staðreynd lítið um þá sköpunargáfu, kraft og tónlistarlegt innsæi sem tónlist hans og spilamennska felur í sér. En fyrir Jaco, sem á eigin spýtur gerbylti því hvernig menn spila á rafbassa og hverju menn búast við af rafbassaleikurum, þá varð þessi yfirlýsing honum (síðar) bölvun.



Jaco fæddist í Fíldadelfíu, Pennsylvaníu árið 1951, sonur syngjandi trommara, hvers faðir var einnig trymbill. Tónlistin var Jaco eðlislæg og þegar hann var 13 ára var hann farinn að tromma með hljómsveitum. En hann trommaði ekki lengi, því stuttu síðar braut hann á sér úlnliðinn við íþróttaiðkun og gat hann ekki spilað á trommurnar af þeim krafti sem til þarf. Síðar fékk hann færi á að skipta yfir á bassann er hann var að spila með 9 manna hornaflokk frá Fort Lauderdale (þangað flutti fjölskylda hans er hann var á 9. ári). Hann átti ekki í neinum vandræðum með nýja hljóðfærið og gerði góð skil á þeim kröfum sem gerðar voru til bassaleikara á þeim tíma.



Árið 1972 fékk hann færi á að spila með hinum fræga Wayne Cochran og hljómsveit hans The C.C. Riders. Þó það hafi ekki staðið lengi yfir (10 mánuði), þá fékk Jaco eins mikið út úr því og hann gat. Það var á þessum tíma sem hann loksins lærði nótnalestur og –skrift. Margar af hans línum sem síðar urðu einkennandi fyrir hann, áttu sér einnig upphaf á þessu tímabili. Bassaleikarar á borð við Bernard Odum og Charles Sherrell, sem báðir léku með James Brown, voru miklir áhrifavaldar á þessum tíma. Einnig stúderaði hann af mikilli kostgæfni bassalínur “soul”-bassaleikarans Jerry Jemmott, sérstaklega á hinni mögnuðu plötu B.B. KingLive & Well”. Jafnframt lærði hann bassalínur Donalds “Duck” Dunn t.a.m. úr lögum eins og “Funky Broadway” með Wilson Pickett og “Soul Man” með Sam & Dave. Hin frábæra funk-bassalína Jaco á “Come on , Come Over” af fyrstu plötu hans; “Jaco Pastorius”, á rætur sínar að rekja til lagsins “I Like It” með Cörlu Thomas frá árinu 1967.
Jaco sneri aftur til Fort Lauderdale árið 1973 og komst þá í kynni við nokkra tónlistarmenn sem áttu eftir að vera samstarfsfélagar hans næstu árin. Pat Metheny, Danny Gotlieb og Mark Egan (sem urðu síðar ¾ hlutar upphaflega mannskapar í Pat Metheny Group) unnu allir með Jaco á þessum tíma. Mark Egan sótti meira að segja einkatíma hjá Jaco, er sá síðarnefndi kenndi tímabundið í hlutastarfi við University Of Miami. Jaco komst einnig í kynni við trompetleikarann Ron Tooley og slagverksleikarann Don Alias. Hann átti eftir að starfa mikið með þeim báðum í framtíðinni.
Ýmis önnur “gigg” rak á fjöru hans á þessum tíma. Don Alias kom honum í kynni við söngvarann Lou Rawls, sem hann spilaði með í 6 mánuði en var þá rekinn úr bandinu. Hann lék með saxafón leikaranum Ira Sullivan, á sama tíma og hann var með fast starf í Miami, og Paul Bley (sem réð Jaco og Metheny í mánaðar “gigg” í New York). Samstarf hans við Paul Bley og bar af sér ávöxtinn “Jaco” – Pastorius/Metheny/Ditmus/Bley (platan heitir Jaco en er ekki sólóplata, lögin eru eftir Paul og Cörlu Bley og Annette Peacock). Sama ár (1975) komst Jaco í kynni við Blood Sweat & Tears trommarann Bobby Columby en hann var einnig “A&R” maðurinn hjá Epic Records. Þessi örlaga miklu kynni þeirra áttu eftir að skjóta Jaco upp á stjörnuhimininn. Bobby Columby varð svo gjörsamlega yfir sig hrifinn eftir að hafa heyrt Jaco spila (einleik), að hann sannfærði máttarstólpana hjá Epic um að leyfa honum að framleiða plötu með honum. Jaco skrifaði undir sinn fyrsta plötuamning við Epic Records þann 15. september, 1975. Platan, sem hét einfaldlega “Jaco Pastorius”, birtir okkur Jaco í öllu sínu veldi og bregður fyrir flest öllum þeim stíltegundum tónlistar sem hann hafði hrifist af og stúderað um árabil, t.a.m. be-bop jazz, funk/R’n’B, latin og sinfónískur. Platan var auk þess stjörnum prýdd (í tónlistarlegu tilliti) , t.d. má heyra í Herbie Hancock, Brecker bræðrum, David Sanborn og Sam & Dave. Einnig hafði Jaco á sama tíma verið að spila í tríói með Pat Metheny og trymblinum Bob Moses. Þeir hljóðrituðu síðan eina breiðskífu fyrir ECM útgáfuna í desember 1975. Skífana var fyrsta plata Pat Metheny (er þá var 21 árs) “Bright Size Life” og er af mörgum talin hans besta skífa. Hún er einnig gott dæmi um hin skapandi samleik sem Jaco (þá ný orðinn 24 ára) sýndi í smærri böndum. Bob Moses fannst platan þó ekki komast nálægt því að fanga þann kraft og spilagleði sem tríóið framkvæmdi á tónleikasviðinu. Við hinir sem höfum ekki samanburðinn erum engu að síður mjög þakklátir fyrir útgáfuna. Það var svo sem fleira sem gerði árið 1975 að frábæru ári fyrir Jaco. Hann komst í kynni við Joe Zawinul hljómborðsleikara Weather Report, og þökk sé úthverfs persónuleika Jaco, framhleypni og ýtni (plús auðheyrðir hæfileikar...!!), þá var hann fenginn til aðstoðar við að klára plötuna “Black Market”, en forvera hans í bandinu, Alphonso Johnson (sem var einnig framherji í bassaleik á þessum árum), hafði boðist annað starf. Jaco lagði meira að segja til lagið “Barbary Coast” á plötuna og það lag varð nokkuð einkennandi fyrir hann, sökum hinnar fönkuðu, dempuðu bassalínu. Í apríl 1976 var hann orðinn fullgildur meðlimur og innan árs hafði hann hjálpað bandinu að ná alþjóðlegri frægð.



Útgáfa plötunnar “Heavy Weather” árið 1977 ásamt upphafslagi hennar Birdland, varð tilefni mikilla vinsælda tilhanda bandinu og meðlimum þess. Jaco lagði til tvö lög, “Havona” og “Teen Town” og var titlaður “co-producer”. Tónleikar sveitarinnar urðu svo ventill fyrir líflega sviðsframkomu hans (og jafnvel ofvirka ef marka má sumar sögurnar). Hluti af dagskrá Weather Report var bassasóló Jaco, í því notaði hann t.a.m. MXR delay til að búa til “groove” og svo spann hann yfir það. Á meðan þessu stóð dansaði hann um á sviðinu (hann dreifði oft barnapúðri á sviðið áður svo hann ætti auðveldara með sporin...) og spilaði hverja hugmyndina á eftir annari í einleik sínum, stundum öskraði hann textabrot úr þeim lögum sem hann var þá að spila bassalínur úr. Yfirleitt náði þessi einleikur hámarki sínu með tilvitnun í Jimi Hendrix lagið “Third Stone From The Sun” með tilheyrandi magnara bjögun. Dæmi um þetta má til að mynda heyra í laginu “Slang (bass solo)” af tónleika plötu Weather Report “8:30” sem kom út árið 1979. Skífan sú var tilnefnd til Grammy verðlauna. Jaco og Weather Report fóru líkt og eldur í sinu um djassheiminn á þessum sjö árum sem þeir áttu samleið. En árið 1982 var hlutverk Jaco orðið lítilsháttar í bandinu sökum spennu innan hópsins. Hann var einnig orðinn spenntur á að fara nýjar leiðir tónlist sinni, sérstaklega með nýjasta verkefni hans á þeim tíma, Word of Mouth stórsveitinni. Sveit sú varð til um það leyti sem önnur plata Pastorius “Word Of Mouth” kom á markaðinn og fékk hún prufukeyrslu í þrítugsafmælisveislu Jaco sem hann hélt sér og sínu fólki árið 1981. Þeir tónleikar voru hljóðritaði og síðar útgefnir fyrir nokkrum árum sem “The Birthday Concert”.
Jaco spilaði inn á plötur með ýmsum öðrum listamönnum á ferli sínum, t.a.m. með Al DiMeola, Ian Hunter, Herbie Hancock, Airto, Tom Scott, Flora Purim og tónleikaplötu með Albert Mangelsdorff básúnuleikara og trommaranum Alphonse Mouzon (hún ku þykja ansi frábær). Mestan ávöxt bar þó samstarf hans sem leiguliði hjá sögnkonunni, gítarleikaranum og söngvaskáldinu Joni Mitchell. Með henni hljóðritaði hann þrjár dásamlegar hljóðversplötur, “Hejira” (1976), “Don Juan’s Reckless Daughter” (1977) og “Mingus” (1979). Tónleikaplatan “Shadows and Light” (1979) var einnig fest á filmu og gefin út á myndbandi (og nú nýlega á DVD).



Næstu árin eftir að Jaco sagði skilið við Weather Report spilaði hann eins mikið og hann gat, oftast með Word Of Mouth sveitinni, en sveitin sú fór í gegnum miklar mannabreytingar og stærðar sveiflur og árið 1985 var hún ekki lengur til. Hann komst á forsíðu tímaritsins Guitar Player og veitti viðtal við djasstímaritið Down Beat á þessum tíma. Hann tók þátt í gerð kennslumyndbandsins “Modern Electric Bass”, sem, þrátt fyrir að Jaco hafi verið komin úr sínu besta formi, veitir innsýn í stíl hans og tækni sem og tónlistarlegan bakgrunn og áhrifavalda.
Líkt og hetjur sínar, Charlie Parker, Jimi Hendrix og Jesús Kristur, þá náði Jaco ekki að lifa út að fertugu. Samt tóks honum á tiltölulega skömmum tíma að gerbylta því hverning menn spila á rafbassa. Frægðar sól hans reis hratt eftir að hann gekk til liðs við Weather Report, sem var bræðingshljómsveit númer 1, á áttunda áratug 20. aldar. Fallið var því hátt af frægðarstallinum og um miðbik níunda áratugarins var hann andlega og líkamlega niðurbrotinn, heimilislaus fátæklingur, gjörsamlega úr sambandi við raunveruleikann.
Jaco þjáðist af arfbundinni geðhvarfasýki (manic depression), sem ágerðist þegar álag frægðarinnar, erfiðleikar í einkalífi og eiturlyfjaneysla fóru saman. Afneitun hans á hjálp var bara ein af birtingarmyndum sjúkdómsins. Í endan á ævi sinni fór hann að láta í ljós dauðaþrá. Hann drakk sig rænulausann, lagðist til svefns á járnbrautarteinum, stofnaði til slagsmála við óárennilegustu menn á börum og lét þá lúskra á sér, líkt og hann leitaði eigin böðuls. Á endanum fann hann böðulinn í formi 25 ára útkastara á næturklúbbi, sem barði hann til óbóta. Jaco var í dái í 10 daga og lést af völdum blæðingar í heila, 21. september 1987.
Jaco Pastorius var goðsögn í lifanda lífi og lifir hún enn góðu lífi, því menn eru enn að uppgötva snilli hans og sækja sér innblástur til tónlistar hans. Nálgun hans á hljóðfærið, - laglínur, - yfirtónar og “percussívskur” ásláttur, allt í einni hendingu, - átti sér ekki fordæmi. Honum var hampað sem snilling og afskrifaður sem geðsjúklingur. Það er auðvitað fín lína milli listsnilli og sjálfhverfu líkt og sálfræðingurinn Carl Jung benti á í sínum kenningum, - og Jaco sigldi milli skers og báru í þeim efnum, en oftast mátti ekki milli sjá. Hann var því ekki að grobba sig er hann sagðist mestur allra bassaleikara á sínum tíma, heldur einingis að fara með staðreynd.



Stíllinn:

Það var ýmislegt í bassaleik Jaco Pastorius sem gerði hann að einstökum brautryðjanda.

Tvö aðalhljóðfæri hans, sem hann notaði megnið af ferlinum, voru tveir Fender Jazz Bass annar árgerð 1960 með böndum og hinn árgerð 1962 og voru böndin fjarlægð úr honum (af Jaco sjálfum að því er sagan segir). Á plötunni “Jaco Pastorius” var sá bandalausi í aðalhlutverki. Bassinn með böndunum var notaður í tvö lög, “Come On, Come Over”, og “Portrait Of Tracy”. Jaco var samt engan veginn fyrsti bassaleikarinn til að nota bandalausan bassa. Á meðal þeirra vel þekktu spilara sem notað höfðu bandalausan bassa áður voru t.d. Rick Danko úr þjóðlagarokksveitinni The Band, Danko notaði að mestu Fender bassa með böndum, en var gefið nokkur (bandalaus) hljóðfæri frá Ampeg, sem heyra má á plötunum “Cahoots” (1971) og “Rock Of Ages” (1971) með The Band. Annar frumkvöðull á bandalausan bassa var Ralphe Armstrong, sem notaði Fender Jazz Bass með bandalausum Fender Precision hálsi t.a.m. á plötunun “Apocalypse” (1974) og “Visions Of The Emerald Beyond” (1975) með hljómsveit gítarleikarans John McLaughlin, Mahavishnu Orchestra. Hljóðfærið (bandalaus rafbassi) náði fyrst fótfestu í bræðings djassi en fljótlega fór þó að bera á því í öðrum stílum t.d. notaði Boz Burrell bandalausan Fender Precision á sumar smellnum “Can’t Get Enough” með hljómsveitinni Bad Company.



En lítum nánar á Pastorius og hans nálgun á hljóðfærið. Fyrsta lagið á “Jaco Pastorius” var be-bop klassíkin “Donna Lee”. Útsetningin er sérstök, bandalaus bassi og conga trommur! Ekki nóg með að laglínan væri erfið yfirferðar, heldur spilaði Jaco tvisvar yfir lagið í spuna sínum áður en hann tekur til við laglínun á ný í nýrri tóntegund, stórri þríund neðar en upphaflega. Engum hafði komið til hugar að spila þessa músík á þennan hátt á rafbassa áður. Bobby Columby heldur því fram að lagið hafi verið klárað í einni til tveimur tökum, sem bendir til þess að Jaco hafi verið ansi vel undirbúinn fyrir upptökur þessar, sólóin jafnvel plönuð að mestu eða öllu leyti. Flutningur Jaco á “Donna Lee” sýnir okkur marga þætti sem einkenndu hans spilamennsku, t.a.m. ryþmískar tilfærslur (tríólur í fjögurra og fimm nótna hendingum), forsjöundarhljómar brotnir og tengdir með skref nálgun, yfirtónar notaðir til að undirstrika hljómgerð, nákvæm framsetnig á ryþma, allur háls bassans er notaður (og allt tíðnisviðið), hljómar (double stops), notkun á efri raddar spennum (9undir, 11undir og 13undir) og þokkafull framsetning ljóðrænna laglína. Með þessu eina lagi fékk Jaco alla til að sjá rafbassann í nýju ljósi og skóp jafnframt nýja skilgreiningu á því hvað fælist í því að vera snillingur, virtuoso, á rafbassa.



Jaco Pastorius - Continuum (bass solo)

Í laginu “Continuum” sameinast ýmsir kostir; Jaco er tónskáldið, lagið er samið sérstaklega fyrir bassa og hann er eini sólóistinn. Tónninn er djúpur og þykkur með smá “chorus” hljóm. Þessi hljómur náðist með því að taka bassapartinn upp tvisvar (double-track), og tók það einungis tvær tökur, sem enn og aftur bendir til þess að allt hafi verið fyrir fram ákveðið hjá okkar manni. Tónsmíðin er hefðbundin að uppbyggingu og formi: 1) laglínan spiluð (form og hljómagangur fylgir þar með); 2) snarstefjun, yfir form lagsins, sem hefur jafna uppbyggingu (tension); 3) spennan leyst (release) með endurtekningu á laglínu. Sannreynt form í tónsmíðum sem nær þarna nýjum hæðum í meðferð rafbassaleikara.
Laglínan í “Continuum” er stef sem bassaleikarar “í öllum þyngdarflokkum” geta reynt sig við, og er n.k. frumgerð/fyrirmynd að því hvernig hægt er að semja fyrir bassa. Drynjandi grunntónar með opnum strengjum, yfirtóna-hljómar sem skera í gegn, marrandi bandalausar laglínur og tveggja nótna hljómar (double stops). Bassasólóið (sjá upprit) hefst með tilvitnun í laglínuna og er á frekar þröngu sviði. Sem sagt; í staðinn fyrir að fara strax á fullt, þá notar Jaco þær laglínur sem eru í laginu og þróar þær áfram. Púlsinn í laginu og sólóinu er byggður á fjórðapartsnótum, þrátt fyrir að mikið af tónhendingum hans feli í sér notkun á fjórða- og áttundaparts tríólum. Þess vegna verða sextánduparta (nótna) runurnar (taktar 59-60 og 71-73) áhrifameiri. Í sextánduparta línunni í töktum 71 og 72 er hver hending í fimm sextándapörtum (sjá umfjöllun um “Donna Lee”).
Í takti 81 hefst áhrifamikil uppbygging með notkun á línum í áttundum“a la” Wes Montgomery, fraserað í fjórðaparts tríólum. Snilldar dæmi um sérstakan spunastíl Jaco. Sumar runurnar í sólóinu ná yfir tvær og ½ áttund. Ein runan sem byrjar í takti 56 (fimmundir) vantar 1 nótu til að ná fjórður áttundunni (E opin strengur, B, F#, C#, G#, D# 20 band á D streng). “Continuum” lagið og sólóið er enn í dag, bassaleikurum ögrun og innblástur.

Eitt er það atriði sem Jaco sá gull í þar sem aðrir sáu ekkert sérstakt, hér er ég að tala um yfirtóna, bæði náttúrulega og s.k. “false harmonics”. Eðlileg afleiðing hins titrandi strengs er yfirtóna-serían, samansafn tóna sem hljóma um leið og grunntónninn. Eðli og samsetning þessara tóna er m.a. það sem gefur hverju hljóðfæri sinn “persónuleika”. Margir nota yfirtónana sem eru yfir 5. og 7. bandi til þess að stilla bassann, en Jaco var fljótur að heyra meira en bara það og samdi yfirtóna meistaraverkið “Portrait Of Tracy”. Í forspili lagsins notar hann yfirtóna sem finnast yfir þriðja, fjórða og fimmta bandi og yfir þessum böndum eru þeir yfirtónar sem koma hvað oftast fyrir í laginu. Á einum stað notast hann við tækni sem selló og fiðluleikarar nota gjarnan til að ná flagelot tón (yfirtónn sem er ekki á opnum streng). Í því tilfelli er vísifingur vinstri handar settur á nótunni B á öðru bandi A strengs og litlifingur teygður yfir 6. band á sama streng og myndast þá yfirtónnin D#. Vísifingurinn hefur þá sömu virkni og (efri) söðullinn á bassanum, og D# yfirtónninn er þá sambærilegur við yfirtóninn sem er á 4. bandi á opnum streng. Lagið “Portrait Of Tracy” er ekki einungis byltingarkennt með tilliti til músíkalskrar notkunar á yfirtónunum, heldur einnig snilldar dæmi um tónsmíð fyrir bassann sem einleikshljóðfæri og sönnun þess hversu miklu einn maður getur náð úr einu hljóðfæri.

Mörg af sólóum Jaco á fyrstu plötu hans, eiga ýmislegt sameiginlegt: sterkur ryþmískur drifkraftur, nákvæm tónmyndun, litríkt tónstiga notkun sem og krómatísk nótnaval, yfirtónar, stef byggð á pantónískum skölum og notkun á öllum hálsi rafbassans. Að auki virðist allur spuninn hafa aukið gildi sitt með undirbúningi og skipulagningu, en á móti má benda á síðari upptökur með Jaco þar sem hann virðist vera meira leitandi og sleggja látin ráða kasti á meðan upptökum stóð. “Jaco Pastorius” var ekki einungis sólóplata bassaleikara, heldur heyrðist þarna rödd magnaðs tónlistarmanns og tónskálds sem svo vildi til að spilaði á rafbassa. Eftir útkomu þessarar plötu varð heimur rafbassans og þeirra sem á hann léku ekki sá sami og áður.

- Sigurdór Guðmundsson




Hlusta á Jaco Pastorius á Spotify

Hér má heyra nokkur lög sem Jaco spilar í...!

mánudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Stanley Clarke



Einn var sá bassaleikari sem átti hvað mestan þátt í að gera rafbassann að vinsælu sólóhljóðfæri, en það var Stanley Clarke. Hann kom fram á sjónarsviðið aðeins nítján ára gamall og spilaði þá á rafbassa jöfnum höndum og kontrabassa. Hann hafði gengið í “Philadelphia academy of music” og fékk fljótt vinnu með þekktum djassspilurum á borð við Art Blakey, Dexter Gordon, Stan Getz og Chick Corea sem lék einnig með Miles.

Stanley hafði mikla tækni og yfirferð á hljóðfærið og sá hann tækifæri til að koma bassanum meira í sviðsljósið. Stofnuðu þeir (Stanley og Chick) saman hljómsveitina Return to Forever og átti hún að verða ansi rafmögnuð jazz/bræðingssveit.
Þar fengu þeir færi á miklu svigrúmi til snarstefjunar og að semja tónlist sem endurspeglaði hæfileika þeirra. Urðu þeir mjög vinsælir og ekki síst Stanley Clarke sem varð mikil bassahetja og spilaði hraðar línur í sólóum sínum og sýndi “flugelda bassaleik”.
Hann tók sér tækni sem annar bassaleikari, Larry Graham, byrjaði að nota , svokallaða slaptækni sem notar þumalinn til ásláttar á bassastrengina, og þróaði hana áfram með miklum stíl. Stanley tók einnig þátt í þróun á nýrri tegund rafbassa. Gömlu framleiðendurnir höfðu verið mjög ráðandi á markaðnum og lítið af nýjungum komið fram um nokkurt skeið. Stanley kom sér í samband við nýjan framleiðanda, Alembic, og hönnuðu þeir bassa sem hefur verið aðalsmerki hans í mörg ár. Bassarnir voru með nýja tegund hljóðnema (pickups) og notuðu formögnun (pre-amp)og tónjöfnun (EQ) í bassanum sjálfum og var útkoman bjart og beitt sánd sem að kom sólóum hans og tækni vel til skila. Einnig var tónsvið bassana aukið í tvær áttundir svo að melódíur og sóló gætu spilast á hærri nótum. Einnig smíðaði Alembic fyrir hann piccolo bassa sem var stilltur áttund ofar en venjulegur bassi.



Seinna lét hann framleiðandann Carl Thompson smíða fyrir sig tenórbassa sem var stilltur ferund ofar (en venjulegur rafbassi) og notaði hann þessa bassa óspart á sólóplötum sínum. Sú fyrsta kom út 1974 og heitir Stanley Clarke, en það var í kjölfar þriðju plötu hans “School Days” sem kom út árið 1976, að hann náði heimsfrægð með titllagi plötunar sem var af mörgum kallað “bassaþjóðsöngurinn”. Það var einnig sama ár sem Return To Forever gáfu út plötuna “Romantic Warrior” með þeim Al DiMeola, Lenny White og Chick Corea og fór sú plata eins og eldur í sinu um gervalla heimsbyggðina. Náði sveitin vinsældum á poppmælikvarða og gerði Stanley Clarke að ofurstjörnu. Platan var marg verðlaunuð og situr á stalli sem hápunktur jazzrokksins hjá mörgum aðdáendum þeirrar tónlistar.
Stanley Clarke hefur í gegnum tíðina leikið inn á aragrúa af hljómplötum bæði á rafbassann og kontrabassann og er hann í þeim litla hópi spilara sem hægt er að telja jafnvíga á bæði hljóðfærin.



Stanley Clarke hefur gert tónlist við nokkrar kvikmyndir við góðan orðstír og hefur sett upp styrktarsjóð í sínu nafni við Los Angeles skólann “Musicians Institute of Technology” sem útdeilir styrkjum til efnilegra nemenda við bassadeild skólans.
Þó að nafn Stanley Clarke hafi risið hvað hæst á velmektarárum jazzbræðingsins er ekki þar með sagt að hann hafi verið sá eini sem lét að sér kveða með bassaleik sínum. (NÆSTI PISTILL ER UM JACO PASTORIUS)

J.Á. (ed. S.G.)

sunnudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Upphaf bræðingstónlistar (fusion)



Er Miles Davis hóf bræðingstilraunir sínar á hljómplötunni Bitches Brew og þeim skífum sem á eftir komu, þá vildi hann nota rafbassann og um leið var kominn forsmekkurinn af því sem átti eftir að þróast yfir í svokallað “jazz-rock” eða “fusion”. Dave Holland er breskur kontrabassaleikari sem fór að notast við rafbassann og oft voru tveir bassaleikarar við upptökur hjá Miles. Þá lék einn á rafbassa og annar á kontrabassa. Á plötunni Bitches Brew spilar Harvey Brooks á rafbassann og Holland á kontrabassann. Seinna fékk Miles til liðs við sig bassaleikarann Michael Henderson og kom hann úr R’n’B geiranum og hafði James Jamerson nálgun á hljóðfærið.



Þar fór í gang sú gerjun sem átti eftir að magnast og verða kallaður bræðingur (fusion). Þar runnu saman hljómarnir og snarstefjunin úr djassinum og rafmagnið og taktarnir úr rokki og R&B. Miles hafði sérstak dálæti á þeim hrynum sem bönd á borð við Sly & the Family Stone og James Brown notuðu og svo gítarinn og krafturinn sem kom fram hjá Jimi Hendrix.
Margir þeir sem léku með Miles á þessum rafmagnaða tíma áttu eftir að koma með sínar eigin útfærslur af jazz-rokki og bræðing. Rafbassinn átti eftir að spila stóra rullu í því samkrulli.


Michael Henderson og Miles Davis

Árið 1973 setti Herbie Hancock (sem áður lék með Miles) saman hljómsveitina Headhunters og spilaði sveitin sú mjög funk skotinn bræðing. Þar fór bassaleikarinn Paul Jackson á kostum í bassaleik sínum. Hann spilaði á gamlan Fender Telecaster bassa og hafði mikinn hljóm sem var þungamiðja hljómsveitarinnar. Hljómsveitin náði miklum vinsældum og er Paul Jackson enn að spila með sinn sérstaka stíl.



J.Á. (ed. S.G.)

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- James Jamerson (MOTOWN)



Einn af áhrifamestu bassaleikurum poppsögunar er James Jamerson. Bassaleikarinn sem allir töluðu um en enginn vissi hver var þar til á seinustu árum. Áhrif hans eru það mikil að flest allir frægir (og hæfileikaríkir....!!) bassaleikarar tala um hann sem áhrifavald og fyrirmynd að einhverju leyti. James Jamerson spilaði inn á flest (90% sást á einhverri netsíðunni...) af lögum Motown útgáfunar og var aðal bassaleikari hennar og hluti af samsettri hljómsveit sem spilaði inn á vel flestar ef ekki allar plötur Motown á tímabilinu 1959-‘72.

James Jamerson fæddist þann 29. janúar árið 1936 í Suður-Karolínu í Bandaríkjunum. Hann fékk ungur áhuga á tónlist og var básúna hljóðfærið sem hann spilaði á til að byrja með. Það var svo ekki fyrr en hann var á sautjánda ári að hann tók upp bassann. Hann fór svo að spila í hljómsveitum eftir að hann fluttist ásamt fráskilinni móðir sinni til Detroit og hóf göngu sína í “Detroit Northwestern High” menntaskólanum og tækifæri gafst á að spila með skólahljómsveitinni. Þá rambaði hann inn í hljómsveitar herbergið og sá þar kontrabassa á gólfinu og sagði víst: “ég verð farinn spila á þetta eftir sex mánuði”. Hljóðfærið virtist eiga vel við hann og var hann fljótlega farinn að æfa og spila swing músik með stíl. Í næturklúbbum Detroit borgar mátti gjarnan sjá og heyra fræga jazzarar á borð við Kenny Burrell, Hank Jones o.fl, spila sinn fína jazz. Oft á tíðum leyfðu þeir sér yngri og óreyndari spilurum, sem gátu eitthvað, að spila með sér og kenndu þeim ýmislegt. Þetta hefur vafalaust verið ómetanlegur skóli fyrir James. Árið 1957 var James búinn að skapa sér orðspor sem efnilegasti bassaleikarinn á Detroit svæðinu og var farinn að spila á dansleikjum og við ýmisleg önnur tækifæri. Eftir að hann fékk sérstakt leyfi lögregluyfirvalda í Detroit til að spila á klúbbum sem veittu áfengi, þá varð hann mjög upptekinn sem bassaleikari. Eftir að hann útskrifaðist úr skóla varð hann ákveðinn í því að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni með hljóðfæraleik. Það leið ekki á löngu þar til hann var farin að vinna í hljóðverum við að spila inn á plötur og fór hróður hans ört vaxandi í þeirri starfsgrein.

Árið 1958 var Berry Gordy búinn að stofna Motown útgáfu fyrirtækið og var James um það leyti boðið að fylgjast með upptöku í Hitsville, en svo nefndist hljóðver Motown. Bassaleikarinn í upptökunni var í vandræðum með lagið sem var verið að æfa fyrir upptökuna og benti þá einhver á James og sagði; “þetta er góður bassaleikari, komdu endilega og prufaðu þetta lag með okkur”. James tók við bassanum og spilaði það vel að hinn bassaleikarinn fékk áfall þegar hann áttaði sig á því að hann var búinn að missa vinnuna. Í fyrstu fannst þeim stíll Jamerson vera full fyrirferðamikill og vildu að hann spilaði í einfaldari og eldri stíl, en það breyttist fljótlega þegar upptökustjórar frá öðrum fyrirtækjum höfðu orð á því að “þessi bassaleikari hefði eitthvað sérstakt við sig”. Þetta sérstaka var hæfileiki Jamerson að blanda jazz bakgrunni sínum við popptónlistina sem Motown var að skapa á þessum tíma.

Það var ekki fyrr en árið 1961 sem að Jamerson skipti yfir á rafbassa en kontrabassinn var engu að síður skammt undan og segir sagan að oft hefði hann byrjað á því að spila inn bassapartinn á kontrann og síðan spilað sama part á rafbassann og var það svo nákvæmt að menn gátu ekki greint að það væru tveir bassar að spila sama partinn. Þess má til gamans geta að Árni Egilsson bassaleikari sem er einn virtasti kontrabassaleikari í Los Angeles lenti í upptökum með James Jamerson þar sem Árni lék á kontrann og James á rafbassa og spiluðu þeir sama skrifaða partinn. Þá fengu þeir botninn og þungann úr kontranum en snerpuna og birtuna úr rafbassanum.

Motown var að byggja upp flytjendasafn sitt og réði til sín lagahöfunda sem margir hverjir voru upptökustjórar og varð Jamerson ómissandi hljóðfæraleikari við upptökurnar. Hann spilaði um árabil inn á lög hjá öllum vinsælustu flytjendunum Motown eins t.d Stevie Wonder, Marvin Gaye og löngum lista flytjenda sem áttu mjög vinsæl lög. Þeir menn sem spiluðu hvað mest saman fyrir Motown náðu mjög vel saman og urðu þeir einskonar húsband og kölluðu þeir sig Funk Brothers. Á þessum tíma voru allir grunnarnir fyrir lögin hljóðritaðir í einu í litlu herbergi og varð þessi hópur nokkuð náinn og átti oft langa vinnudaga saman.
Það var með Fender Precision bassanum sem að James Jamerson skapaði sér mjög sérstakan stíl sem af mörgum í dag er talinn hrein snilld. Bassarnir komu í þá daga með flatwound strengjum sem gáfu frekar mattann eða dempaðann hljóm og að auki voru svampar settir aftast á stólinn til að drepa niður tóninn enn frekar. James notaði einnig “heavy gauge” stærð af flatwound strengjum. Það þurfti því að taka töluvert á strengjunum til að fá almennilegan tón og koma bassalínunum til skila. Það er nokkuð ljóst að styrkur Jamersons lá í því að hafa spilað mikið á kontrabassann áður enn hann skipti yfir á rafmagnsbassann.

En samkæmt heimildum var það nánast ómögulegt fyrir aðra að spila á bassann hans vegna þess hversu langt strengirnir voru frá fingraborðinu. Það vekur því furðu manna sem hlusta á upptökur af Jamerson hvernig honum tókst að spila þessar oft mjög flóknu bassalínur eins vel og ákveðið og hann gerði. Þar að auki á hann einungis að hafa notað vísifingur hægri handar til að plokka strengina og fékk hann (fingurinn þ.e.) viðurnefnið “The Hook”. Línur hans höfðu mjög mikið flæði og sterkar ryþmískar áherslur án þess að vera í vegi söngvara og annara hljóðfæra. Þvert á móti gaf hann lögunum mikið líf og gerði þau mjög sérstök. Yfirleitt voru honum réttir skrifaðir partar sem að hann var svo beðinn um að túlka eða með öðrum orðum að setja handbragð sitt á. Hann er af mörgum talinn lykilmaðurinn í hinum sérstaka Motown hljómi og hefur eflaust átt þátt í þeim vinsældum og langlífi margra þeirra laga sem að útgáfan sendi frá sér. Einnig fór hann í margar tónleikaferðir með Motown flytjendum um Ameríku, því enginn var í fyrstu fær um að endurflytja bassalínur hans á tónleikum. Árið 1964 var Jamerson fastráðinn við hljóðverið því upptökustjórar vildu geta nálgast hann hvenær sem þeir vildu. Hann var nánast stöðugt í hljóðverunum við upptökur og hefur eflaust verið gríðarlegt álag á honum. Alkóhólismi herjaði á James Jamerson og fór hann að setja skugga sinn á annars stórkostlegan frama hans hjá Motown.

Þannig var mál með vexti að nafn Jamerson kom ekki fram á neinni hljómplötu sem gefin var út á fyrstu tólf árunum sem hann starfaði hjá Motown og urðu margar af þeim gríðarlega vinsælar og fór vegur Motown mjög ört vaxandi. Að því kom að útgáfan fluttist til Los Angeles og ákvað Jamerson að flytja sig og fjölskyldu sína með. En tíðarandinn var að breytast og tónlistin með og átti Jamerson erfitt með að taka þátt í þessum breytingum og náði hann ekki að aðlaga sig að þeim. Áherslur í bassaleik voru einnig breytast og í Los Angeles var fjöldinn allur af leiguliðum (sessionleikurum) sem voru til taks ef James var illa fyrir kallaður eða átti í efiðleikum með að fara að tilmælum upptökustjóra. Hann var þeirrar skoðunar að ekki ætti að skipta um strengi nema að þeir slitnuðu því þannig viðhéldist funkið í þeim. Þetta var sándið hans og beiðnir um að hann skipti um strengi og nota s.k. “roundwound” strengi, og fá þar með bjartari hljóm, höfðuðu ekki til hans. Því fór það svo að vinnan minnkaði og erfiðleikar hans tengdir drykkju jukust ásamt þunglyndi og vansæld. Leit hann svo á að Motown hefði snúið við honum baki, hann sem lagt hafði sig allan fram og átt þátt í ævintýralegum uppgangi útgáfunar, mundi nú falla í gleymsku. Því miður var þetta orðin raunin þegar James Jamerson dó úr kvillum tengdum alkóhólisma þann 1.ágúst 1983.
Árið 2000 var James Jamerson innlimaður í “Rock and Roll Hall of Fame” ekki síst fyrir tilstilli einstaklings sem kallar sig Dr. Licks og hefur haldið merki Jamerson á lofti um árabil. Hann skrifaði bók sem segir sögu Jamerson og þeirra Funk bræðra, einnig eru uppritaðar fjölmargar bassalínur Jamerson. Það hefur ekki verið létt verk því að partarnir eru ansi flóknir og fjölbreytilegir. Einnig fékk hann marga af frægustu bassaleikurum seinustu ára og áratuga til að spila bassalínurnar upp á nýtt og skrifa örlítið um Jamerson og áhrif hans á þá. Í þeim skrifum kemur fram mikil virðing og staðfesting á snilli James Jamerson og gengur einn þeirra svo langt að kalla hann Charlie Parker rafbassans. Er nú svo komið að flestum sem sýna rafbassanum einhvern áhuga, er sagt frá þessum snillingi. Þeir geta nú rýnt í verk hans og heyrt áhrif hans í leikstíl fjölda annara bassaleikara. Árið 2002 kom út kvikmynd sem heitir” Standing in the Shadow of Motown” og er hún byggð á samnefndri bók Dr. Licks og heiðrar hún minningu Jamerson og félaga hans úr “Funk Brothers” sem margir hverjir eru enn á lífi og tala um hann í myndinni. Einnig má heyra bassaleik Jamerson sem að náðist af gömlum hljóðböndum og var einangraður frá heildinni og má geta sér þess til að það sé áhugaverð hlustun.



Eins og fyrr segir hafði Jamerson gríðarlega mikil áhrif á aðra bassaleikara þegar hann var á hátindi ferils síns og komu fram margir bassaleikarar á þessum tíma sem tóku sér stíl hans til fyrirmyndar. Þar má til dæmis nefna Chuck Rainey sem varð einn virtasti hljóðversbassaleikarinn um tíma og spilaði inn á plötur með fjölda flytjenda t.a.m. hljómsveitinni Steely Dan.
Carol Kaye, sem einnig lék inn á lög fyrir Motown ásamt mörgum fleirum. Bob Babbit sem leysti Jamerson oft af og situr í sæti hans á tónleikum sem settir voru upp í fyrrnefndri kvikmynd. Einnig er óhætt að segja að áhrif hans koma ekki bara fram í popptónlist heldur í fjölmörgum afsprengjum jazztónlistar þar sem að rafbassi er notaður.

J.Á. (S.G. ed.)

laugardagur

Rafbassinn: Saga og þróun í jazz og bræðings-tónlist -- Monk Montgomery og aðrir frumherjar rafbassans.


Montgomery bræðurnir

Á meðal þeirra allra fyrstu til að nota rafbassa (nánar til tekið “Fender Precision”) var Roy Johnson sem var í hljómsveit Lionel Hamptons, og spilaði sveitin sú blöndu af swing og (þess tíma) R&B, e-h. konar frumgerð af “jazz/rock’n’roll fusion”. Roy Johnson var þó ekki lengi í röðum Hamptons, en rafbassinn varð kyrr í bandinu og við honum tók William Monk” Montgomery (1921-1982). Monk var fyrsti spilarinn á þeim tíma (í kringum 1951-’53) sem virkilega vakti athygli á hinu splunkunýja hljóðfæri sem rafbassinn var. Þó að Monk fengi athyglina og heiðurinn sem þessi frumherji sem hann var, þá hefði ekkert af þessu gerst með þessum hætti ef ekki hefði komið til vilji hljómsveitarstjóranns til að nota rafbassann í hljómsveit sinni. Allt bendir til þess að hann hafi verið manna fyrstur (í París árið 1953) til að spila inn á jazz plötu með rafbassa, og jafnvel fyrstur allra burtséð frá tónlistarstíl, en heimildir vantar til að staðfesta það.
Monk kom úr fjölskyldu þar sem tónlist var í hávegum höfð og voru t.a.m. 3 bræður hans hljóðfæraleikar, gítarleikarinn Wes þeirra þekktastur. Þeir bræður spiluðu m.a. saman í hljómsveitunum Montgomery Brothers og Mastersounds.

Meðal helstu bassaleikara sem höfðu áhrif á Monk (sem byrjaði reyndar frekar seint á ævinni að reyna sig í tónlist, í kringum þrítugs aldurinn) voru t.d. Jimmy Blanton, Ray Brown, Charles Mingus og Oscar Pettiford, einnig höfðu hljómsveitir John Coltrane og Miles Davis áhrif á hann.

Varðandi tækni Williams “Monk” Montgomery á rafbassann, þá var hún kannski ekki upp á marga fiska ef maður miðar við nútímann. Monk nálgaðist hljóðfærið sem það væri kontrabassi og það skilaði sér í tónlistinni. Hann notaði fyrst og fremst þumalinn til að mynda tóninn. Hraði var ekki það sem þessi tækni bauð upp heldur (að hans eigin mati) hinn lagrænni tónn. Monk Montgomery lést í Las Vegas 20. maí árið 1982 en þar hafði hann starfað sem hljóðvers- og leikhús spilari, ásamt því að þeyta skífum á útvarpsstöð og þess að vera stofnandi og skipileggjari Las Vegas Jazz Society.



Dæmi um spila stíl hans má finna á:
Montgomery Brothers The Montgomery Brothers And Five Others (endurútgefið sem) Wes, Buddy & Monk Montgomery (World Pacific/Pacific Jazz 1957)
Montgomeryland (Pacific Jazz 1959)
The Montgomery Brothers (Fantasy 1960)
Montgomery Brothers The Montgomery Brothers In Canada (Fantasy 1961)
Montgomery Brothers Groove Yard (Riverside 1961)
Wes' Best (Fantasy 1967)
It's Never Too Late (Mojazz 1969)
Reality (Philadelphia International 1974)
Love Walked In - George Shearing (Jazzland 1961).


SG

ALLT sem viðkemur rafbassanum.




Hér ætla ég að nördast svolítið um rafbassann og allt sem ég tel viðkoma honum og tónlist þar sem hann fær að njóta sín í.

Til að byrja með ætla ég að birta, í bútum, ritgerð sem ég og Jóhann Ásmundsson skrifuðum (tókum saman) í Kennaradeild Tónlistarskóla FÍH vorið 2003.

Svo má búast við allskona uppritum (transcriptions/nótum) og tilfallandi "námsefni" og æfingum.

Ef einhverjir hafa á huga á að gerast gestapennar hér á þessari síðu þá er um að gera að senda mér línu (póstur og messenger spjall).

Vonandi finna einhverjir eitthvað við sitt hæfi hér á rafbassinn.blogspot.com