Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- John Patitucci
John Patitucci fæddist árið 1959 í Brooklyn-hverfi New York borgar í Bandaríkjum Norður Ameríku. Hann hóf að spila á bassa er hann var tíu ára og var þá mikið að hlusta á t.d. The Beatles og tónlistarmenn sem voru hjá Motown útgáfunni (James Jamerson bassaleikari Motown var mikill áhrifavaldur á Patitucci). Er hann var 12 ára var hann farinn að semja tónlist og koma fram opinberlega, þrem árum síðar (15 ára) tók hann til við að læra á kontrabassa.
John Patitucci er einn af fáum bassaleikurum sem telja má til snillinga á bæði kontra- og rafbassa. Meðal helstu áhrifavalda hans á rafbassann eru fyrr nefndur James Jameson, Stanley Clarke (sem spilar einnig á bæði kontra- og rafbassa), Jaco Pastorius, Steve Swallow, Larry Graham, Abe Laboriel, Chuck Rainey, Willie Weeks, Jerry Jemmott og Anthony Jackson. Einnig ber hann mikla virðingu fyrir Marcus Miller. Meðal helstu áhrifavalda hans á kontrabassann eru Ron Carter, Ray Brown, Eddie Gomez, Scott LaFaro, George Mraz og Niels-Henning Örsted Pedersen. Hann hefur sem sagt sterkar rætur í soul/R&B tónlist og jazz, jafnframt því sem hann lærði klassíska tónlist. Saxafónleikarar á borð við Michael Brecker, John Coltrane og Joe Henderson eru einnig áhrifavaldar og reynir Patitucci að ná sama flæði í sólóum sínum og honum finnst þeir ná fram í spuna sínum. Hluti af færni hans í jazzspuna er sprottin frá þeirri iðkun hans að upprita og læra sóló annara tónlistarmanna. Eitt af fyrstu sólóunum sem hann lærði var með Stanley Clarke af plötunni Return To Forever, annað var með Willie Weeks af tónleikaplötu Donny Hathaway “Voices Inside (Everything Is Everything)”. Síðar réðst hann í sóló með Chick Corea, Michael Brecker, John Scofield (á Rough House) og Herbie Hancock.
Tækni John Patitucci er mikill og fjölbreytt, enda maðurinn greinilega vel menntaður og undirbúinn. Sóló hans bera þess vissulega vott að hann hefur stúderað saxafónleikara, línurnar fljóta liðlega í gegnum hljómana með bæði ryþmísku og lagrænu öryggi. Sólólínur hans liggja yfirleitt á efri hluta tónsviðs 6 strengja bassans (Ken Smith og síðar Yamaha TRB) sem hann byrjaði að nota árið 1985 um það leyti er hann gekk til liðs við raf-jazz sveit Chick Corea. Tónn hans er nútímalegur, hreinn og beinn, stundum er “handfylli” af “reverbi” bætt við hljóminn.
John Patitucci hafa fallið í skaut ýmsar vegtyllur gegnum árin. Árið 1986 var hann kosinn af félögum sínum í hljóðversheiminum (National Academy of Recording Arts and Science) besti (MVP) kontrabassaleikarinn. Hinar fjölmörgu plötur sem hann hefur spilað inn á með Chick Corea og svo hans eigin plötur, 6 að tölu, hafa fært honum 8 Grammy tilnefningar og 2 Grammy verðlaun (ein fyrir spilamennsku og önnur fyrir tónsmíðar). Þar að auki fór fyrsta sólóskífa hans “John Patitucci” á topp Billboard Jazz vinsældalistans. John Patitucci hefur unnið fjölmargar (vinsælda/hæfileika) kosningar í hinum ýmsustu tímaritum fyrir bæði raf- og kontrabassaleik sinn t.a.m. besti jazz bassaleikarinn í “Guitar Player Magazine” árin 1992, ’94, og ’95. Lesendaverðlaun og besti jazz bassaleikarinn í “Bass Player Magazine” árin 1993, ’94, ’95 og og lesendaverðlaunin 1996. Hann hefur einnig fengist við kennslu á námskeiðum í spilamennsku og tónsmíðum um allan heim og er listrænn stjórnandi Bass Collective í New York.
Plötur John Patitucci:
Hlustið á John Patitucci í iTunes