mánudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Stanley Clarke



Einn var sá bassaleikari sem átti hvað mestan þátt í að gera rafbassann að vinsælu sólóhljóðfæri, en það var Stanley Clarke. Hann kom fram á sjónarsviðið aðeins nítján ára gamall og spilaði þá á rafbassa jöfnum höndum og kontrabassa. Hann hafði gengið í “Philadelphia academy of music” og fékk fljótt vinnu með þekktum djassspilurum á borð við Art Blakey, Dexter Gordon, Stan Getz og Chick Corea sem lék einnig með Miles.

Stanley hafði mikla tækni og yfirferð á hljóðfærið og sá hann tækifæri til að koma bassanum meira í sviðsljósið. Stofnuðu þeir (Stanley og Chick) saman hljómsveitina Return to Forever og átti hún að verða ansi rafmögnuð jazz/bræðingssveit.
Þar fengu þeir færi á miklu svigrúmi til snarstefjunar og að semja tónlist sem endurspeglaði hæfileika þeirra. Urðu þeir mjög vinsælir og ekki síst Stanley Clarke sem varð mikil bassahetja og spilaði hraðar línur í sólóum sínum og sýndi “flugelda bassaleik”.
Hann tók sér tækni sem annar bassaleikari, Larry Graham, byrjaði að nota , svokallaða slaptækni sem notar þumalinn til ásláttar á bassastrengina, og þróaði hana áfram með miklum stíl. Stanley tók einnig þátt í þróun á nýrri tegund rafbassa. Gömlu framleiðendurnir höfðu verið mjög ráðandi á markaðnum og lítið af nýjungum komið fram um nokkurt skeið. Stanley kom sér í samband við nýjan framleiðanda, Alembic, og hönnuðu þeir bassa sem hefur verið aðalsmerki hans í mörg ár. Bassarnir voru með nýja tegund hljóðnema (pickups) og notuðu formögnun (pre-amp)og tónjöfnun (EQ) í bassanum sjálfum og var útkoman bjart og beitt sánd sem að kom sólóum hans og tækni vel til skila. Einnig var tónsvið bassana aukið í tvær áttundir svo að melódíur og sóló gætu spilast á hærri nótum. Einnig smíðaði Alembic fyrir hann piccolo bassa sem var stilltur áttund ofar en venjulegur bassi.



Seinna lét hann framleiðandann Carl Thompson smíða fyrir sig tenórbassa sem var stilltur ferund ofar (en venjulegur rafbassi) og notaði hann þessa bassa óspart á sólóplötum sínum. Sú fyrsta kom út 1974 og heitir Stanley Clarke, en það var í kjölfar þriðju plötu hans “School Days” sem kom út árið 1976, að hann náði heimsfrægð með titllagi plötunar sem var af mörgum kallað “bassaþjóðsöngurinn”. Það var einnig sama ár sem Return To Forever gáfu út plötuna “Romantic Warrior” með þeim Al DiMeola, Lenny White og Chick Corea og fór sú plata eins og eldur í sinu um gervalla heimsbyggðina. Náði sveitin vinsældum á poppmælikvarða og gerði Stanley Clarke að ofurstjörnu. Platan var marg verðlaunuð og situr á stalli sem hápunktur jazzrokksins hjá mörgum aðdáendum þeirrar tónlistar.
Stanley Clarke hefur í gegnum tíðina leikið inn á aragrúa af hljómplötum bæði á rafbassann og kontrabassann og er hann í þeim litla hópi spilara sem hægt er að telja jafnvíga á bæði hljóðfærin.



Stanley Clarke hefur gert tónlist við nokkrar kvikmyndir við góðan orðstír og hefur sett upp styrktarsjóð í sínu nafni við Los Angeles skólann “Musicians Institute of Technology” sem útdeilir styrkjum til efnilegra nemenda við bassadeild skólans.
Þó að nafn Stanley Clarke hafi risið hvað hæst á velmektarárum jazzbræðingsins er ekki þar með sagt að hann hafi verið sá eini sem lét að sér kveða með bassaleik sínum. (NÆSTI PISTILL ER UM JACO PASTORIUS)

J.Á. (ed. S.G.)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home