sunnudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- James Jamerson (MOTOWN)



Einn af áhrifamestu bassaleikurum poppsögunar er James Jamerson. Bassaleikarinn sem allir töluðu um en enginn vissi hver var þar til á seinustu árum. Áhrif hans eru það mikil að flest allir frægir (og hæfileikaríkir....!!) bassaleikarar tala um hann sem áhrifavald og fyrirmynd að einhverju leyti. James Jamerson spilaði inn á flest (90% sást á einhverri netsíðunni...) af lögum Motown útgáfunar og var aðal bassaleikari hennar og hluti af samsettri hljómsveit sem spilaði inn á vel flestar ef ekki allar plötur Motown á tímabilinu 1959-‘72.

James Jamerson fæddist þann 29. janúar árið 1936 í Suður-Karolínu í Bandaríkjunum. Hann fékk ungur áhuga á tónlist og var básúna hljóðfærið sem hann spilaði á til að byrja með. Það var svo ekki fyrr en hann var á sautjánda ári að hann tók upp bassann. Hann fór svo að spila í hljómsveitum eftir að hann fluttist ásamt fráskilinni móðir sinni til Detroit og hóf göngu sína í “Detroit Northwestern High” menntaskólanum og tækifæri gafst á að spila með skólahljómsveitinni. Þá rambaði hann inn í hljómsveitar herbergið og sá þar kontrabassa á gólfinu og sagði víst: “ég verð farinn spila á þetta eftir sex mánuði”. Hljóðfærið virtist eiga vel við hann og var hann fljótlega farinn að æfa og spila swing músik með stíl. Í næturklúbbum Detroit borgar mátti gjarnan sjá og heyra fræga jazzarar á borð við Kenny Burrell, Hank Jones o.fl, spila sinn fína jazz. Oft á tíðum leyfðu þeir sér yngri og óreyndari spilurum, sem gátu eitthvað, að spila með sér og kenndu þeim ýmislegt. Þetta hefur vafalaust verið ómetanlegur skóli fyrir James. Árið 1957 var James búinn að skapa sér orðspor sem efnilegasti bassaleikarinn á Detroit svæðinu og var farinn að spila á dansleikjum og við ýmisleg önnur tækifæri. Eftir að hann fékk sérstakt leyfi lögregluyfirvalda í Detroit til að spila á klúbbum sem veittu áfengi, þá varð hann mjög upptekinn sem bassaleikari. Eftir að hann útskrifaðist úr skóla varð hann ákveðinn í því að sjá fyrir sér og fjölskyldu sinni með hljóðfæraleik. Það leið ekki á löngu þar til hann var farin að vinna í hljóðverum við að spila inn á plötur og fór hróður hans ört vaxandi í þeirri starfsgrein.

Árið 1958 var Berry Gordy búinn að stofna Motown útgáfu fyrirtækið og var James um það leyti boðið að fylgjast með upptöku í Hitsville, en svo nefndist hljóðver Motown. Bassaleikarinn í upptökunni var í vandræðum með lagið sem var verið að æfa fyrir upptökuna og benti þá einhver á James og sagði; “þetta er góður bassaleikari, komdu endilega og prufaðu þetta lag með okkur”. James tók við bassanum og spilaði það vel að hinn bassaleikarinn fékk áfall þegar hann áttaði sig á því að hann var búinn að missa vinnuna. Í fyrstu fannst þeim stíll Jamerson vera full fyrirferðamikill og vildu að hann spilaði í einfaldari og eldri stíl, en það breyttist fljótlega þegar upptökustjórar frá öðrum fyrirtækjum höfðu orð á því að “þessi bassaleikari hefði eitthvað sérstakt við sig”. Þetta sérstaka var hæfileiki Jamerson að blanda jazz bakgrunni sínum við popptónlistina sem Motown var að skapa á þessum tíma.

Það var ekki fyrr en árið 1961 sem að Jamerson skipti yfir á rafbassa en kontrabassinn var engu að síður skammt undan og segir sagan að oft hefði hann byrjað á því að spila inn bassapartinn á kontrann og síðan spilað sama part á rafbassann og var það svo nákvæmt að menn gátu ekki greint að það væru tveir bassar að spila sama partinn. Þess má til gamans geta að Árni Egilsson bassaleikari sem er einn virtasti kontrabassaleikari í Los Angeles lenti í upptökum með James Jamerson þar sem Árni lék á kontrann og James á rafbassa og spiluðu þeir sama skrifaða partinn. Þá fengu þeir botninn og þungann úr kontranum en snerpuna og birtuna úr rafbassanum.

Motown var að byggja upp flytjendasafn sitt og réði til sín lagahöfunda sem margir hverjir voru upptökustjórar og varð Jamerson ómissandi hljóðfæraleikari við upptökurnar. Hann spilaði um árabil inn á lög hjá öllum vinsælustu flytjendunum Motown eins t.d Stevie Wonder, Marvin Gaye og löngum lista flytjenda sem áttu mjög vinsæl lög. Þeir menn sem spiluðu hvað mest saman fyrir Motown náðu mjög vel saman og urðu þeir einskonar húsband og kölluðu þeir sig Funk Brothers. Á þessum tíma voru allir grunnarnir fyrir lögin hljóðritaðir í einu í litlu herbergi og varð þessi hópur nokkuð náinn og átti oft langa vinnudaga saman.
Það var með Fender Precision bassanum sem að James Jamerson skapaði sér mjög sérstakan stíl sem af mörgum í dag er talinn hrein snilld. Bassarnir komu í þá daga með flatwound strengjum sem gáfu frekar mattann eða dempaðann hljóm og að auki voru svampar settir aftast á stólinn til að drepa niður tóninn enn frekar. James notaði einnig “heavy gauge” stærð af flatwound strengjum. Það þurfti því að taka töluvert á strengjunum til að fá almennilegan tón og koma bassalínunum til skila. Það er nokkuð ljóst að styrkur Jamersons lá í því að hafa spilað mikið á kontrabassann áður enn hann skipti yfir á rafmagnsbassann.

En samkæmt heimildum var það nánast ómögulegt fyrir aðra að spila á bassann hans vegna þess hversu langt strengirnir voru frá fingraborðinu. Það vekur því furðu manna sem hlusta á upptökur af Jamerson hvernig honum tókst að spila þessar oft mjög flóknu bassalínur eins vel og ákveðið og hann gerði. Þar að auki á hann einungis að hafa notað vísifingur hægri handar til að plokka strengina og fékk hann (fingurinn þ.e.) viðurnefnið “The Hook”. Línur hans höfðu mjög mikið flæði og sterkar ryþmískar áherslur án þess að vera í vegi söngvara og annara hljóðfæra. Þvert á móti gaf hann lögunum mikið líf og gerði þau mjög sérstök. Yfirleitt voru honum réttir skrifaðir partar sem að hann var svo beðinn um að túlka eða með öðrum orðum að setja handbragð sitt á. Hann er af mörgum talinn lykilmaðurinn í hinum sérstaka Motown hljómi og hefur eflaust átt þátt í þeim vinsældum og langlífi margra þeirra laga sem að útgáfan sendi frá sér. Einnig fór hann í margar tónleikaferðir með Motown flytjendum um Ameríku, því enginn var í fyrstu fær um að endurflytja bassalínur hans á tónleikum. Árið 1964 var Jamerson fastráðinn við hljóðverið því upptökustjórar vildu geta nálgast hann hvenær sem þeir vildu. Hann var nánast stöðugt í hljóðverunum við upptökur og hefur eflaust verið gríðarlegt álag á honum. Alkóhólismi herjaði á James Jamerson og fór hann að setja skugga sinn á annars stórkostlegan frama hans hjá Motown.

Þannig var mál með vexti að nafn Jamerson kom ekki fram á neinni hljómplötu sem gefin var út á fyrstu tólf árunum sem hann starfaði hjá Motown og urðu margar af þeim gríðarlega vinsælar og fór vegur Motown mjög ört vaxandi. Að því kom að útgáfan fluttist til Los Angeles og ákvað Jamerson að flytja sig og fjölskyldu sína með. En tíðarandinn var að breytast og tónlistin með og átti Jamerson erfitt með að taka þátt í þessum breytingum og náði hann ekki að aðlaga sig að þeim. Áherslur í bassaleik voru einnig breytast og í Los Angeles var fjöldinn allur af leiguliðum (sessionleikurum) sem voru til taks ef James var illa fyrir kallaður eða átti í efiðleikum með að fara að tilmælum upptökustjóra. Hann var þeirrar skoðunar að ekki ætti að skipta um strengi nema að þeir slitnuðu því þannig viðhéldist funkið í þeim. Þetta var sándið hans og beiðnir um að hann skipti um strengi og nota s.k. “roundwound” strengi, og fá þar með bjartari hljóm, höfðuðu ekki til hans. Því fór það svo að vinnan minnkaði og erfiðleikar hans tengdir drykkju jukust ásamt þunglyndi og vansæld. Leit hann svo á að Motown hefði snúið við honum baki, hann sem lagt hafði sig allan fram og átt þátt í ævintýralegum uppgangi útgáfunar, mundi nú falla í gleymsku. Því miður var þetta orðin raunin þegar James Jamerson dó úr kvillum tengdum alkóhólisma þann 1.ágúst 1983.
Árið 2000 var James Jamerson innlimaður í “Rock and Roll Hall of Fame” ekki síst fyrir tilstilli einstaklings sem kallar sig Dr. Licks og hefur haldið merki Jamerson á lofti um árabil. Hann skrifaði bók sem segir sögu Jamerson og þeirra Funk bræðra, einnig eru uppritaðar fjölmargar bassalínur Jamerson. Það hefur ekki verið létt verk því að partarnir eru ansi flóknir og fjölbreytilegir. Einnig fékk hann marga af frægustu bassaleikurum seinustu ára og áratuga til að spila bassalínurnar upp á nýtt og skrifa örlítið um Jamerson og áhrif hans á þá. Í þeim skrifum kemur fram mikil virðing og staðfesting á snilli James Jamerson og gengur einn þeirra svo langt að kalla hann Charlie Parker rafbassans. Er nú svo komið að flestum sem sýna rafbassanum einhvern áhuga, er sagt frá þessum snillingi. Þeir geta nú rýnt í verk hans og heyrt áhrif hans í leikstíl fjölda annara bassaleikara. Árið 2002 kom út kvikmynd sem heitir” Standing in the Shadow of Motown” og er hún byggð á samnefndri bók Dr. Licks og heiðrar hún minningu Jamerson og félaga hans úr “Funk Brothers” sem margir hverjir eru enn á lífi og tala um hann í myndinni. Einnig má heyra bassaleik Jamerson sem að náðist af gömlum hljóðböndum og var einangraður frá heildinni og má geta sér þess til að það sé áhugaverð hlustun.



Eins og fyrr segir hafði Jamerson gríðarlega mikil áhrif á aðra bassaleikara þegar hann var á hátindi ferils síns og komu fram margir bassaleikarar á þessum tíma sem tóku sér stíl hans til fyrirmyndar. Þar má til dæmis nefna Chuck Rainey sem varð einn virtasti hljóðversbassaleikarinn um tíma og spilaði inn á plötur með fjölda flytjenda t.a.m. hljómsveitinni Steely Dan.
Carol Kaye, sem einnig lék inn á lög fyrir Motown ásamt mörgum fleirum. Bob Babbit sem leysti Jamerson oft af og situr í sæti hans á tónleikum sem settir voru upp í fyrrnefndri kvikmynd. Einnig er óhætt að segja að áhrif hans koma ekki bara fram í popptónlist heldur í fjölmörgum afsprengjum jazztónlistar þar sem að rafbassi er notaður.

J.Á. (S.G. ed.)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home