fimmtudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Jaco Pastorius



“Hi. I’m Jaco Pastorius, and I’m the greatest electric bass player in the world.”

Þessu hélt John Francis Pastorius III fram. Fyrir mörgum væri þess háttar yfirlýsing ekkert annað en grobb og mont egóistans. En fyrir þá tónlistarmenn sem þekktu Jaco og deildu með honum sviðinu, var þetta staðreynd. Fyrir þá bassaleikara sem eru að taka sér stíl hans og tækni til fyrirmyndar, þá segir þessi staðreynd lítið um þá sköpunargáfu, kraft og tónlistarlegt innsæi sem tónlist hans og spilamennska felur í sér. En fyrir Jaco, sem á eigin spýtur gerbylti því hvernig menn spila á rafbassa og hverju menn búast við af rafbassaleikurum, þá varð þessi yfirlýsing honum (síðar) bölvun.



Jaco fæddist í Fíldadelfíu, Pennsylvaníu árið 1951, sonur syngjandi trommara, hvers faðir var einnig trymbill. Tónlistin var Jaco eðlislæg og þegar hann var 13 ára var hann farinn að tromma með hljómsveitum. En hann trommaði ekki lengi, því stuttu síðar braut hann á sér úlnliðinn við íþróttaiðkun og gat hann ekki spilað á trommurnar af þeim krafti sem til þarf. Síðar fékk hann færi á að skipta yfir á bassann er hann var að spila með 9 manna hornaflokk frá Fort Lauderdale (þangað flutti fjölskylda hans er hann var á 9. ári). Hann átti ekki í neinum vandræðum með nýja hljóðfærið og gerði góð skil á þeim kröfum sem gerðar voru til bassaleikara á þeim tíma.



Árið 1972 fékk hann færi á að spila með hinum fræga Wayne Cochran og hljómsveit hans The C.C. Riders. Þó það hafi ekki staðið lengi yfir (10 mánuði), þá fékk Jaco eins mikið út úr því og hann gat. Það var á þessum tíma sem hann loksins lærði nótnalestur og –skrift. Margar af hans línum sem síðar urðu einkennandi fyrir hann, áttu sér einnig upphaf á þessu tímabili. Bassaleikarar á borð við Bernard Odum og Charles Sherrell, sem báðir léku með James Brown, voru miklir áhrifavaldar á þessum tíma. Einnig stúderaði hann af mikilli kostgæfni bassalínur “soul”-bassaleikarans Jerry Jemmott, sérstaklega á hinni mögnuðu plötu B.B. KingLive & Well”. Jafnframt lærði hann bassalínur Donalds “Duck” Dunn t.a.m. úr lögum eins og “Funky Broadway” með Wilson Pickett og “Soul Man” með Sam & Dave. Hin frábæra funk-bassalína Jaco á “Come on , Come Over” af fyrstu plötu hans; “Jaco Pastorius”, á rætur sínar að rekja til lagsins “I Like It” með Cörlu Thomas frá árinu 1967.
Jaco sneri aftur til Fort Lauderdale árið 1973 og komst þá í kynni við nokkra tónlistarmenn sem áttu eftir að vera samstarfsfélagar hans næstu árin. Pat Metheny, Danny Gotlieb og Mark Egan (sem urðu síðar ¾ hlutar upphaflega mannskapar í Pat Metheny Group) unnu allir með Jaco á þessum tíma. Mark Egan sótti meira að segja einkatíma hjá Jaco, er sá síðarnefndi kenndi tímabundið í hlutastarfi við University Of Miami. Jaco komst einnig í kynni við trompetleikarann Ron Tooley og slagverksleikarann Don Alias. Hann átti eftir að starfa mikið með þeim báðum í framtíðinni.
Ýmis önnur “gigg” rak á fjöru hans á þessum tíma. Don Alias kom honum í kynni við söngvarann Lou Rawls, sem hann spilaði með í 6 mánuði en var þá rekinn úr bandinu. Hann lék með saxafón leikaranum Ira Sullivan, á sama tíma og hann var með fast starf í Miami, og Paul Bley (sem réð Jaco og Metheny í mánaðar “gigg” í New York). Samstarf hans við Paul Bley og bar af sér ávöxtinn “Jaco” – Pastorius/Metheny/Ditmus/Bley (platan heitir Jaco en er ekki sólóplata, lögin eru eftir Paul og Cörlu Bley og Annette Peacock). Sama ár (1975) komst Jaco í kynni við Blood Sweat & Tears trommarann Bobby Columby en hann var einnig “A&R” maðurinn hjá Epic Records. Þessi örlaga miklu kynni þeirra áttu eftir að skjóta Jaco upp á stjörnuhimininn. Bobby Columby varð svo gjörsamlega yfir sig hrifinn eftir að hafa heyrt Jaco spila (einleik), að hann sannfærði máttarstólpana hjá Epic um að leyfa honum að framleiða plötu með honum. Jaco skrifaði undir sinn fyrsta plötuamning við Epic Records þann 15. september, 1975. Platan, sem hét einfaldlega “Jaco Pastorius”, birtir okkur Jaco í öllu sínu veldi og bregður fyrir flest öllum þeim stíltegundum tónlistar sem hann hafði hrifist af og stúderað um árabil, t.a.m. be-bop jazz, funk/R’n’B, latin og sinfónískur. Platan var auk þess stjörnum prýdd (í tónlistarlegu tilliti) , t.d. má heyra í Herbie Hancock, Brecker bræðrum, David Sanborn og Sam & Dave. Einnig hafði Jaco á sama tíma verið að spila í tríói með Pat Metheny og trymblinum Bob Moses. Þeir hljóðrituðu síðan eina breiðskífu fyrir ECM útgáfuna í desember 1975. Skífana var fyrsta plata Pat Metheny (er þá var 21 árs) “Bright Size Life” og er af mörgum talin hans besta skífa. Hún er einnig gott dæmi um hin skapandi samleik sem Jaco (þá ný orðinn 24 ára) sýndi í smærri böndum. Bob Moses fannst platan þó ekki komast nálægt því að fanga þann kraft og spilagleði sem tríóið framkvæmdi á tónleikasviðinu. Við hinir sem höfum ekki samanburðinn erum engu að síður mjög þakklátir fyrir útgáfuna. Það var svo sem fleira sem gerði árið 1975 að frábæru ári fyrir Jaco. Hann komst í kynni við Joe Zawinul hljómborðsleikara Weather Report, og þökk sé úthverfs persónuleika Jaco, framhleypni og ýtni (plús auðheyrðir hæfileikar...!!), þá var hann fenginn til aðstoðar við að klára plötuna “Black Market”, en forvera hans í bandinu, Alphonso Johnson (sem var einnig framherji í bassaleik á þessum árum), hafði boðist annað starf. Jaco lagði meira að segja til lagið “Barbary Coast” á plötuna og það lag varð nokkuð einkennandi fyrir hann, sökum hinnar fönkuðu, dempuðu bassalínu. Í apríl 1976 var hann orðinn fullgildur meðlimur og innan árs hafði hann hjálpað bandinu að ná alþjóðlegri frægð.



Útgáfa plötunnar “Heavy Weather” árið 1977 ásamt upphafslagi hennar Birdland, varð tilefni mikilla vinsælda tilhanda bandinu og meðlimum þess. Jaco lagði til tvö lög, “Havona” og “Teen Town” og var titlaður “co-producer”. Tónleikar sveitarinnar urðu svo ventill fyrir líflega sviðsframkomu hans (og jafnvel ofvirka ef marka má sumar sögurnar). Hluti af dagskrá Weather Report var bassasóló Jaco, í því notaði hann t.a.m. MXR delay til að búa til “groove” og svo spann hann yfir það. Á meðan þessu stóð dansaði hann um á sviðinu (hann dreifði oft barnapúðri á sviðið áður svo hann ætti auðveldara með sporin...) og spilaði hverja hugmyndina á eftir annari í einleik sínum, stundum öskraði hann textabrot úr þeim lögum sem hann var þá að spila bassalínur úr. Yfirleitt náði þessi einleikur hámarki sínu með tilvitnun í Jimi Hendrix lagið “Third Stone From The Sun” með tilheyrandi magnara bjögun. Dæmi um þetta má til að mynda heyra í laginu “Slang (bass solo)” af tónleika plötu Weather Report “8:30” sem kom út árið 1979. Skífan sú var tilnefnd til Grammy verðlauna. Jaco og Weather Report fóru líkt og eldur í sinu um djassheiminn á þessum sjö árum sem þeir áttu samleið. En árið 1982 var hlutverk Jaco orðið lítilsháttar í bandinu sökum spennu innan hópsins. Hann var einnig orðinn spenntur á að fara nýjar leiðir tónlist sinni, sérstaklega með nýjasta verkefni hans á þeim tíma, Word of Mouth stórsveitinni. Sveit sú varð til um það leyti sem önnur plata Pastorius “Word Of Mouth” kom á markaðinn og fékk hún prufukeyrslu í þrítugsafmælisveislu Jaco sem hann hélt sér og sínu fólki árið 1981. Þeir tónleikar voru hljóðritaði og síðar útgefnir fyrir nokkrum árum sem “The Birthday Concert”.
Jaco spilaði inn á plötur með ýmsum öðrum listamönnum á ferli sínum, t.a.m. með Al DiMeola, Ian Hunter, Herbie Hancock, Airto, Tom Scott, Flora Purim og tónleikaplötu með Albert Mangelsdorff básúnuleikara og trommaranum Alphonse Mouzon (hún ku þykja ansi frábær). Mestan ávöxt bar þó samstarf hans sem leiguliði hjá sögnkonunni, gítarleikaranum og söngvaskáldinu Joni Mitchell. Með henni hljóðritaði hann þrjár dásamlegar hljóðversplötur, “Hejira” (1976), “Don Juan’s Reckless Daughter” (1977) og “Mingus” (1979). Tónleikaplatan “Shadows and Light” (1979) var einnig fest á filmu og gefin út á myndbandi (og nú nýlega á DVD).



Næstu árin eftir að Jaco sagði skilið við Weather Report spilaði hann eins mikið og hann gat, oftast með Word Of Mouth sveitinni, en sveitin sú fór í gegnum miklar mannabreytingar og stærðar sveiflur og árið 1985 var hún ekki lengur til. Hann komst á forsíðu tímaritsins Guitar Player og veitti viðtal við djasstímaritið Down Beat á þessum tíma. Hann tók þátt í gerð kennslumyndbandsins “Modern Electric Bass”, sem, þrátt fyrir að Jaco hafi verið komin úr sínu besta formi, veitir innsýn í stíl hans og tækni sem og tónlistarlegan bakgrunn og áhrifavalda.
Líkt og hetjur sínar, Charlie Parker, Jimi Hendrix og Jesús Kristur, þá náði Jaco ekki að lifa út að fertugu. Samt tóks honum á tiltölulega skömmum tíma að gerbylta því hverning menn spila á rafbassa. Frægðar sól hans reis hratt eftir að hann gekk til liðs við Weather Report, sem var bræðingshljómsveit númer 1, á áttunda áratug 20. aldar. Fallið var því hátt af frægðarstallinum og um miðbik níunda áratugarins var hann andlega og líkamlega niðurbrotinn, heimilislaus fátæklingur, gjörsamlega úr sambandi við raunveruleikann.
Jaco þjáðist af arfbundinni geðhvarfasýki (manic depression), sem ágerðist þegar álag frægðarinnar, erfiðleikar í einkalífi og eiturlyfjaneysla fóru saman. Afneitun hans á hjálp var bara ein af birtingarmyndum sjúkdómsins. Í endan á ævi sinni fór hann að láta í ljós dauðaþrá. Hann drakk sig rænulausann, lagðist til svefns á járnbrautarteinum, stofnaði til slagsmála við óárennilegustu menn á börum og lét þá lúskra á sér, líkt og hann leitaði eigin böðuls. Á endanum fann hann böðulinn í formi 25 ára útkastara á næturklúbbi, sem barði hann til óbóta. Jaco var í dái í 10 daga og lést af völdum blæðingar í heila, 21. september 1987.
Jaco Pastorius var goðsögn í lifanda lífi og lifir hún enn góðu lífi, því menn eru enn að uppgötva snilli hans og sækja sér innblástur til tónlistar hans. Nálgun hans á hljóðfærið, - laglínur, - yfirtónar og “percussívskur” ásláttur, allt í einni hendingu, - átti sér ekki fordæmi. Honum var hampað sem snilling og afskrifaður sem geðsjúklingur. Það er auðvitað fín lína milli listsnilli og sjálfhverfu líkt og sálfræðingurinn Carl Jung benti á í sínum kenningum, - og Jaco sigldi milli skers og báru í þeim efnum, en oftast mátti ekki milli sjá. Hann var því ekki að grobba sig er hann sagðist mestur allra bassaleikara á sínum tíma, heldur einingis að fara með staðreynd.



Stíllinn:

Það var ýmislegt í bassaleik Jaco Pastorius sem gerði hann að einstökum brautryðjanda.

Tvö aðalhljóðfæri hans, sem hann notaði megnið af ferlinum, voru tveir Fender Jazz Bass annar árgerð 1960 með böndum og hinn árgerð 1962 og voru böndin fjarlægð úr honum (af Jaco sjálfum að því er sagan segir). Á plötunni “Jaco Pastorius” var sá bandalausi í aðalhlutverki. Bassinn með böndunum var notaður í tvö lög, “Come On, Come Over”, og “Portrait Of Tracy”. Jaco var samt engan veginn fyrsti bassaleikarinn til að nota bandalausan bassa. Á meðal þeirra vel þekktu spilara sem notað höfðu bandalausan bassa áður voru t.d. Rick Danko úr þjóðlagarokksveitinni The Band, Danko notaði að mestu Fender bassa með böndum, en var gefið nokkur (bandalaus) hljóðfæri frá Ampeg, sem heyra má á plötunum “Cahoots” (1971) og “Rock Of Ages” (1971) með The Band. Annar frumkvöðull á bandalausan bassa var Ralphe Armstrong, sem notaði Fender Jazz Bass með bandalausum Fender Precision hálsi t.a.m. á plötunun “Apocalypse” (1974) og “Visions Of The Emerald Beyond” (1975) með hljómsveit gítarleikarans John McLaughlin, Mahavishnu Orchestra. Hljóðfærið (bandalaus rafbassi) náði fyrst fótfestu í bræðings djassi en fljótlega fór þó að bera á því í öðrum stílum t.d. notaði Boz Burrell bandalausan Fender Precision á sumar smellnum “Can’t Get Enough” með hljómsveitinni Bad Company.



En lítum nánar á Pastorius og hans nálgun á hljóðfærið. Fyrsta lagið á “Jaco Pastorius” var be-bop klassíkin “Donna Lee”. Útsetningin er sérstök, bandalaus bassi og conga trommur! Ekki nóg með að laglínan væri erfið yfirferðar, heldur spilaði Jaco tvisvar yfir lagið í spuna sínum áður en hann tekur til við laglínun á ný í nýrri tóntegund, stórri þríund neðar en upphaflega. Engum hafði komið til hugar að spila þessa músík á þennan hátt á rafbassa áður. Bobby Columby heldur því fram að lagið hafi verið klárað í einni til tveimur tökum, sem bendir til þess að Jaco hafi verið ansi vel undirbúinn fyrir upptökur þessar, sólóin jafnvel plönuð að mestu eða öllu leyti. Flutningur Jaco á “Donna Lee” sýnir okkur marga þætti sem einkenndu hans spilamennsku, t.a.m. ryþmískar tilfærslur (tríólur í fjögurra og fimm nótna hendingum), forsjöundarhljómar brotnir og tengdir með skref nálgun, yfirtónar notaðir til að undirstrika hljómgerð, nákvæm framsetnig á ryþma, allur háls bassans er notaður (og allt tíðnisviðið), hljómar (double stops), notkun á efri raddar spennum (9undir, 11undir og 13undir) og þokkafull framsetning ljóðrænna laglína. Með þessu eina lagi fékk Jaco alla til að sjá rafbassann í nýju ljósi og skóp jafnframt nýja skilgreiningu á því hvað fælist í því að vera snillingur, virtuoso, á rafbassa.



Jaco Pastorius - Continuum (bass solo)

Í laginu “Continuum” sameinast ýmsir kostir; Jaco er tónskáldið, lagið er samið sérstaklega fyrir bassa og hann er eini sólóistinn. Tónninn er djúpur og þykkur með smá “chorus” hljóm. Þessi hljómur náðist með því að taka bassapartinn upp tvisvar (double-track), og tók það einungis tvær tökur, sem enn og aftur bendir til þess að allt hafi verið fyrir fram ákveðið hjá okkar manni. Tónsmíðin er hefðbundin að uppbyggingu og formi: 1) laglínan spiluð (form og hljómagangur fylgir þar með); 2) snarstefjun, yfir form lagsins, sem hefur jafna uppbyggingu (tension); 3) spennan leyst (release) með endurtekningu á laglínu. Sannreynt form í tónsmíðum sem nær þarna nýjum hæðum í meðferð rafbassaleikara.
Laglínan í “Continuum” er stef sem bassaleikarar “í öllum þyngdarflokkum” geta reynt sig við, og er n.k. frumgerð/fyrirmynd að því hvernig hægt er að semja fyrir bassa. Drynjandi grunntónar með opnum strengjum, yfirtóna-hljómar sem skera í gegn, marrandi bandalausar laglínur og tveggja nótna hljómar (double stops). Bassasólóið (sjá upprit) hefst með tilvitnun í laglínuna og er á frekar þröngu sviði. Sem sagt; í staðinn fyrir að fara strax á fullt, þá notar Jaco þær laglínur sem eru í laginu og þróar þær áfram. Púlsinn í laginu og sólóinu er byggður á fjórðapartsnótum, þrátt fyrir að mikið af tónhendingum hans feli í sér notkun á fjórða- og áttundaparts tríólum. Þess vegna verða sextánduparta (nótna) runurnar (taktar 59-60 og 71-73) áhrifameiri. Í sextánduparta línunni í töktum 71 og 72 er hver hending í fimm sextándapörtum (sjá umfjöllun um “Donna Lee”).
Í takti 81 hefst áhrifamikil uppbygging með notkun á línum í áttundum“a la” Wes Montgomery, fraserað í fjórðaparts tríólum. Snilldar dæmi um sérstakan spunastíl Jaco. Sumar runurnar í sólóinu ná yfir tvær og ½ áttund. Ein runan sem byrjar í takti 56 (fimmundir) vantar 1 nótu til að ná fjórður áttundunni (E opin strengur, B, F#, C#, G#, D# 20 band á D streng). “Continuum” lagið og sólóið er enn í dag, bassaleikurum ögrun og innblástur.

Eitt er það atriði sem Jaco sá gull í þar sem aðrir sáu ekkert sérstakt, hér er ég að tala um yfirtóna, bæði náttúrulega og s.k. “false harmonics”. Eðlileg afleiðing hins titrandi strengs er yfirtóna-serían, samansafn tóna sem hljóma um leið og grunntónninn. Eðli og samsetning þessara tóna er m.a. það sem gefur hverju hljóðfæri sinn “persónuleika”. Margir nota yfirtónana sem eru yfir 5. og 7. bandi til þess að stilla bassann, en Jaco var fljótur að heyra meira en bara það og samdi yfirtóna meistaraverkið “Portrait Of Tracy”. Í forspili lagsins notar hann yfirtóna sem finnast yfir þriðja, fjórða og fimmta bandi og yfir þessum böndum eru þeir yfirtónar sem koma hvað oftast fyrir í laginu. Á einum stað notast hann við tækni sem selló og fiðluleikarar nota gjarnan til að ná flagelot tón (yfirtónn sem er ekki á opnum streng). Í því tilfelli er vísifingur vinstri handar settur á nótunni B á öðru bandi A strengs og litlifingur teygður yfir 6. band á sama streng og myndast þá yfirtónnin D#. Vísifingurinn hefur þá sömu virkni og (efri) söðullinn á bassanum, og D# yfirtónninn er þá sambærilegur við yfirtóninn sem er á 4. bandi á opnum streng. Lagið “Portrait Of Tracy” er ekki einungis byltingarkennt með tilliti til músíkalskrar notkunar á yfirtónunum, heldur einnig snilldar dæmi um tónsmíð fyrir bassann sem einleikshljóðfæri og sönnun þess hversu miklu einn maður getur náð úr einu hljóðfæri.

Mörg af sólóum Jaco á fyrstu plötu hans, eiga ýmislegt sameiginlegt: sterkur ryþmískur drifkraftur, nákvæm tónmyndun, litríkt tónstiga notkun sem og krómatísk nótnaval, yfirtónar, stef byggð á pantónískum skölum og notkun á öllum hálsi rafbassans. Að auki virðist allur spuninn hafa aukið gildi sitt með undirbúningi og skipulagningu, en á móti má benda á síðari upptökur með Jaco þar sem hann virðist vera meira leitandi og sleggja látin ráða kasti á meðan upptökum stóð. “Jaco Pastorius” var ekki einungis sólóplata bassaleikara, heldur heyrðist þarna rödd magnaðs tónlistarmanns og tónskálds sem svo vildi til að spilaði á rafbassa. Eftir útkomu þessarar plötu varð heimur rafbassans og þeirra sem á hann léku ekki sá sami og áður.

- Sigurdór Guðmundsson




Hlusta á Jaco Pastorius á Spotify

Hér má heyra nokkur lög sem Jaco spilar í...!

2 Comments:

Anonymous Nafnlaus sagði...

Vel gert

24/9/05 12:46  
Anonymous Nafnlaus sagði...

Vorum að skoða greinina um Jaco Pastorius og höfðum gaman af. Fræðandi skrif um þennan merka bassaleikara. Hafðu þökk fyrir

Páll Bóndi

21/2/09 17:29  

Skrifa ummæli

<< Home