sunnudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Upphaf bræðingstónlistar (fusion)



Er Miles Davis hóf bræðingstilraunir sínar á hljómplötunni Bitches Brew og þeim skífum sem á eftir komu, þá vildi hann nota rafbassann og um leið var kominn forsmekkurinn af því sem átti eftir að þróast yfir í svokallað “jazz-rock” eða “fusion”. Dave Holland er breskur kontrabassaleikari sem fór að notast við rafbassann og oft voru tveir bassaleikarar við upptökur hjá Miles. Þá lék einn á rafbassa og annar á kontrabassa. Á plötunni Bitches Brew spilar Harvey Brooks á rafbassann og Holland á kontrabassann. Seinna fékk Miles til liðs við sig bassaleikarann Michael Henderson og kom hann úr R’n’B geiranum og hafði James Jamerson nálgun á hljóðfærið.



Þar fór í gang sú gerjun sem átti eftir að magnast og verða kallaður bræðingur (fusion). Þar runnu saman hljómarnir og snarstefjunin úr djassinum og rafmagnið og taktarnir úr rokki og R&B. Miles hafði sérstak dálæti á þeim hrynum sem bönd á borð við Sly & the Family Stone og James Brown notuðu og svo gítarinn og krafturinn sem kom fram hjá Jimi Hendrix.
Margir þeir sem léku með Miles á þessum rafmagnaða tíma áttu eftir að koma með sínar eigin útfærslur af jazz-rokki og bræðing. Rafbassinn átti eftir að spila stóra rullu í því samkrulli.


Michael Henderson og Miles Davis

Árið 1973 setti Herbie Hancock (sem áður lék með Miles) saman hljómsveitina Headhunters og spilaði sveitin sú mjög funk skotinn bræðing. Þar fór bassaleikarinn Paul Jackson á kostum í bassaleik sínum. Hann spilaði á gamlan Fender Telecaster bassa og hafði mikinn hljóm sem var þungamiðja hljómsveitarinnar. Hljómsveitin náði miklum vinsældum og er Paul Jackson enn að spila með sinn sérstaka stíl.



J.Á. (ed. S.G.)

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home