fimmtudagur

Lestur bókstafshljóma og skilningur á þeim

Lestur bókstafshljóma.

Tónstigi (skali/scale) hefur (oftast) sjö nótur. Ef oddatölurnar 1, 3, 5, 7, eru spilaðar samtímis myndast hljómur með fjórum nótum (grunntón, þríund, fimmund og sjöund) og dregur hljómurinn nafn sitt af grunntóninum t.d. C eða G. Hér koma nokkrar reglur um bókstafshljóma.

1) Bókstafur þýðir þrjár nótur; grunntónn, 3und og 5und. Ef hljómurinn væri t.d. (skrifaður) D, þá vitum við að hann inniheldur D (grunntón), F# (stór 3und (ath. reglu nr. 2)) og A (hrein 5und (ath. reglu nr. 2).

2) 3und og 6und eru alltaf stór (dúr), nema annað sé tekið fram.

3) 7und er alltaf lítil nema annað sé tekið fram.

4) 4und og 5und eru hrein, 4und getur verið stækkuð (#4), og 5und getur verið minnkuð (b5) eða stækkuð (#5).

5) Major, þýðir stór (dúr) og er eingöngu notað til að stækka 7und (sjá reglu nr. 3), tákn fyrir major eru t.d. ma, ma7, maj7 (og þríhyrningur).

6) Minor, þýðir lítill (moll), og er eingöngu notað til að minnka 3und (sjá reglu nr.2), tákn fyrir moll eru; m, mi, min og -.

7) Augmented , þýðir stækkaður hljómur (stór 3und og stækkuð 5und) og er skammstöfunin aug oftast notuð, einnig er & notað.

8) Diminished, þýðir minnkaður hljómur (lítil 3und og lítil 5und) og er skammstöfunin dim oftast notuð, einnig er táknið o notað.

9) Halfdiminished, þýðir hálfminnkaður (lítil 3und, lítil 5und og lítil 7und) og er táknaður sem; m7(b5) (sjá tákn fyrir moll-hljóma upp á aðra möguleika), einnig er táknið Ø oft notað.

10) Suspended, þýðir að 4und kemur í stað 3undar í hljóminn og er skammstöfunin sus eða sus4 oftast notuð.

11) Altered þýðir breyttur hljómur og breytast 2und, 4und og 5und og er hann skammstafaður alt eða alt7 (hann inniheldur s.s. stóra 3und og litla 7und)

Þær nótur sem eftir eru í tónstiganum þ.e. 2. 4. 6. eða 2und, 4und og 6und eru spilaðar einni áttund hærra og nefnast spennur (tensions).

12) 2und verður að 9und,hana er svo hægt að stækka eða minnka (b9) og/eða (#9) (sjá reglu 11. um altered-hljóma).

13) 4und verður að 11und, hana er svo hægt að stækka (#11).

14) 6und verður að 13und, sem er svo hægt að minnka (b13) (=lítil 13und).

Myndband: Vídeó af laginu "You Can Call Me Al" með Paul Simon

Fann þetta vídeó af laginu "You Can Call Me Al". Hér! Chevy Chase og Paul Simon að fíflast/mæma fyrir framan vélina. Sérlega broslegt að sjá Paul Simon "mæma" hið snilldar bassabreik afríska bassaleikarans Bakithi Kumalo.


Bakithi Kumalo með Lakland bassann sinn

miðvikudagur

Rafbassinn: Saga og þróun í djass og bræðings-tónlist -- Ýmsir bassaleikarar / stiklað á stóru...



Anthony Jackson
kom fram á plötum Al DiMeola og hafði mjög sérstakan stíl og frábæra tækni. Var hann líka einn sá fyrsti sem gerði tilraunir með hljóðbreyta á bassan t.a.m. “flanger” og “chorus”. Þessir hljóðbreytar gera hljóm bassans syndandi eða fljótandi og fyllri. Sagan segir að hann hafi hannað sumt af þessu sjálfur og hafi verið vísindalegur í hljóðpælingum og spilamennsku sinni. Enda er hún oft á tíðum alveg með eindæmum nákvæm og vel framkvæmd. Anthony telur James Jamerson sinn lærifaðir í bassaleik og segist ekki eiga til nógu sterk lýsingarorð yfir snilli hans. Eitt af stærstu framlögum Anthony Jackson til bassaleiks, eru tilraunir hans með að spila niður fyrir djúpa E á bassanum. Ekki er það á hreinu að hann hafi verið sá allra fyrsti til að gera þetta en eitt er víst að þessar pælingar hans leiddu til þess að hann lét smíða fyrir sig sex strengja bassa sem hann kallaði “Contrabass” og var hann eins og allir sex strengja bassar eru framleiddir í dag, með djúpan B-streng og háan C-streng. Fimm strengja bassinn kom svo í kjölfarið. Það höfðu verið framleiddir bæði fimm og sex strengja bassar áður en þeir höfðu ekki haft djúpan B streng. Sá sex strengja var með sömu strengja setningu og gítar (Tveimur áttundum neðar) og var það Fender sem setti hann á markað og kallaði VI. Fimmstrengja bassinn var með háum C streng í viðbót við hina venjulegu. Anthony Jackson er enn einn fremsti bassaleikari heims og hefur spilað með mörgum frægum jazzleikurum. Hann var um skeið í stórsveit Buddy Rich, spilaði inn á plötur með Michel Petrucciani og er núna með hinum virta “latin” pianista Michel Camillo og semur sá gríðarlega krefjandi bassaparta sem hann segir engan geta flutt eins vel og Anthony Jackson.



Alphonso Johnson
var bassaleikari í bræðingssveitinni Weather Report áður en Jaco Pastorius gekk til liðs við bandið. Alphonso hafði þá leikið inn á nokkrar plötur sveitarinnar og samið nokkur af lögum hennar. Hann var einnig með þeim fyrstu sem notuðu bandalausan bassa á hljómplötum. Stíll hans var mjög sérstakur og átti vel heima í framúrstefnulegri tónlist Weather Report. Eftir að hann hætti í bandinu lék hann inn á nokkrar sólóskífur og setti á laggirnar skóla í Los Angeles sem hann kennir við. Hann lék einnig um árabil með Santana og er enn að spila með ýmsum listamönnum.



Jeff Berlin
er bassaleikari sem ungur að árum lék með Gil Evans Orchestra og spilaði inn á plötu með gítarleikaranum Allan Holdsworth. Sýndi hann þar mikla tækni á bassann og var með hárbeitt sánd, svolítið í ætt við Jaco enda lenti hann í skugganum af honum eins og svo margir aðrir. Hefur gert nokkra sólódiska og rekur skóla í Flórida.



Steve Swallow
er bassaleikari sem að fór alfarið af kontranum yfir á rafbassann og notar hann í jazzsveitum sínum. Spilar með nögl og býr til þykkt og mikið sánd sem að er mjög sérstakt. Leikur inn á hljómplötur með Cörlu Bley og hefur gefið út nokkrar sólódiska.



Vert er að minnast á nokkra bassaleikara sem voru/eru kannski ekki í jazzheiminum en höfðu vissulega áhrif sem skiluðu sér þangað með tímanum.



Larry Graham
er kallaður faðir “slap”-tækninnar og hefur hann útskýrt tilkomu hennar þannig...: Hann spilaði undir í tríói móður sinnar (sem var orgelleikari) og þegar trommuleikarinn hætti að láta sjá sig á tónleikunum, sá hann sig tilneyddan til að bjarga málum upp á eigin spýtur. Fór hann því að reyna að herma eftir bassatrommunni með því að slá þumlinum á strenginn og sneriltrommunni með því að toga upp efsta streng og sleppa. Þannig byrjaði þessi stíll sem síðar átti eftir að tröllríða bassasamfélaginu í fjölda ára og lifir þokkalegu lífi enn í dag. Larry Graham var bassaleikari hjá Sly & the Family Stone og lék inn á vinsælustu lög þeirra.



Francis “Rocco” Prestia
er bassaleikari Tower of Power og hefur verið eingöngu með þeirri sveit í yfir þrjátíu ár. Hann er sjálfmenntaður og stíll hans felst í að spila mikið af nótum, en mjög þétt og notar hann mikið af s.k. “ghost” nótum eða dempuðum nótum til að gæða “grúvið” lífi. Féll stíll hans fullkomlega að tónlist T.O.P. og gerði hana mjög funkaða.




Verdine White er bassaleikari Earth Wind & Fire og átti stórgóða spretti með líflegu spili og villtri sviðsmennsku. Tónlist E.W.F lifir enn góðu lífi eins og hljómsveitin sjálf. Heyra má vel spilaðar og fágaðar bassalínur hans í lögum eins og í laginu “September” sem hljómar oft í útvarpi.




Louis Johnson var bassaleikari hljómsveitinni Brothers Johnson sem hann stofnaði ásamt bróður sínum, gítarleikaranum George Johnson. Vakti slap stíll hans mikla athygli og náði eyrum upptökustjórans Quincy Jones, sem réði þá bræður til sín og gerði seinna með þeim plötu. Johnson spilaði síðan inn á margar plötur fyrir Quincy Jones, þar á meðal fyrstu tvær skífur Michael Jackson, “Off The Wall” og “Thriller” sem hafa selst í met upplögum út um gervalla heimsbyggðina. Leo Fender gerði Johnson að talsmanni nýrrar bassategundar sem hann var að byrja að framleiða og var það Music Man bassinn sem varð mjög vinsæll, sérstaklega hjá þeim er notuðu slaptæknina.


Á síðustu fimmtán árum hafa komið fram mjög margir bassaleikarar sem hafa verið duglegir við að halda bassanum á lofti sem áhugaverðu hljóðfæri. Bassin er orðinn svo veigamikill þáttur í flestum tónlistarstílum, ekki bara jazzi, að of langt mál væri að telja þá alla til sögunnar. En hér eru nokkrir sem hafa komið fram með nýstárlega stíla og sýnt fádæma frábæra spilamennsku.




Victor Wooten
er nánast sirkusmaður enda ólst hann upp við að spila undir þar. Loftfimleika spilamennska hans er engu lík og hefur hann náð það mikilli tækni á hljóðfærið að það er eins og að margir spili í einu. Blandar hann saman slaptækni og fingrastíl saman og er mjög líflegur. Vert er að taka sérstaklega fram hæfni hans í s.k. “double thump” tækni, en hún felst í því að (þegar) þumalinn er notaður við í slaptæknina þá er hann sleginn niður eins og venjulega en einnig upp á við þ.e. undan strengnum. Sést hefur til Victors fara heljarstökk jafnfætis á meðan hann spilar.




Michael Manring
er bassaleikari sem að hefur getið sér gott orð fyrir hugmynda auðgi og vandaðan flutning. Hann gerir tilraunir með breyttar stillingar á hljóðfærinu og hefur gert tónlist sem fellur inn nýaldarstíl sem og þyngsta tilraunarokk og funk.




Alain Caron
er kanadískur bassaleikari sem oftast spilar á sex strengja bandalausan bassa, og þá af mikilli snilld. Einnig er maðurinn afskaplega fær kontrabassaleikari og slappar á rafbassann eins og sá sem að valdið hefur. Hann var meðlimur í þekktu tríói sem kallaði sig UZEB og gerði nokkra bræðingsdiska. Alain er á fullu að spila út um allan heim og flytur sína eigin tónlist sem hann hefur gefið út.




Darryl Jones
var valinn af Sting til að spila á bassa fyrir sig, er hann setti saman hljómsveit með ungum jazz spilurum á borð við Omar Hakim (Weather Report) og Kenny Kirkland (John Scofiled). Darryl spilaði með Miles Davis eftir að Marcus Miller hætti og spilaði síðar með The Rolling Stones. Stíll hans er ekki ósvipaður stíl Marcus Miller.




Einn af kraftmestu síð-bræðingsbassaleikaranna er Gary Willis, sem hefur vakið athygli fyrir djúpa “improviseraðar” línur og “grúv” í anda, Rocco / Jaco / Paul Jackson og jafnframt hendir hann fram átakalausum “be-bop”-legum sólólínum á bandalausa Ibanez 5 bassan sinn. Willis notar frekar léttan fingra áslátt, en lætur magnarann frekar sjá um hljóðstyrkinn. Hann hefur gefið út plötur í eigin nafni og t.a.m. með hljómsveitinni Tribal Tech.




Ekki má gleyma Skúla Sverrissyni sem er í fremstu línu rafbassaleikara sem eru í rafrænni sköpun á tónlist. Eftir nám í Tónlistarskóla F.Í.H. fór hann út í “Berklee Collage of Music” og útskrifaðist þaðan með láði og fékk í kjölfarið fullt af tilboðum um spilamennsku. Hann lék með Allan Holdsworth í nokkur ár og er nú tónlistarstjóri fjöllistakonunar Laurie Anderson. Er einn af forsprökkum Knitting Factory kynslóðarinnar og leikur með öllum fremstu flytjendum hennar. Hefur stýrt upptökum fyrir og spilað með mörgum íslenskum flytjendum m.a. Jóel Pálssyni, Hilmar Jenssyni, Óskar Guðjónsyni og fleirum.

(J.Á. & S.G.)

Áður óbirtar myndir af Jaco Pastorius frá því snemma á 8. áratugnum.



Those pictures were taken when The Rich Franks' Trio with Alex Darqui gigged at the Players Club, Oakland Park Blvd. near the Dixie Highway tracks, when Jaco sat in!



Mér voru að áskotnast þessar myndir af Jaco þar sem hann er að "taka í" hjá einhverju tríói á einhverjum klúbbi í gamla daga! Stóðst ekki mátið að birta þær hér!